154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp til breytinga á almannatryggingalögum. Það hefur lengi verið beðið eftir því að það kæmi hér heildstætt frumvarp um almannatryggingarnar en það verður að viðurkennast að þetta lítilræði sem ég sé sérstaklega jákvætt í frumvarpinu, sem mörgum mun náttúrlega þykja gott — og það er verið að einfalda kerfið, það verður ekki frá þeim tekið að það er verið að einfalda kerfið. Þannig að hugsanlega munu jafnvel starfsmenn Tryggingastofnunar skilja það fyrir rest, því að þeir gera það ekki í dag. Það þarf í rauninni að leita sér sérfræðihjálpar til að vita hver réttur manns er gagnvart þessu kerfi sem Tryggingastofnun vinnur eftir í dag. Þetta frumvarp ber engu að síður með sér þá lítilsvirðingu og þá ítrekuðu aðför sem viðhöfð hefur verið hér gegn öryrkjum þessa lands.

Þegar samningar voru á milli almannatryggingaþega almennt á sínum tíma, 2016, átti aldeilis að breyta kerfinu til hagsbóta fyrir bæði eldra fólk og öryrkja. Þarna var starfshópur sem var að drífa í því að gera þetta nú afskaplega huggulegt og fínt fyrir alla en útkoman var sú á þeim tíma, 2016, að þá þegar var reynt að koma því þannig fyrir hjá öryrkjum að það átti að þvinga þá í starfsgetumat. Nýja kerfið sem var verið að reyna að teikna upp 2016 átti að þvinga þá í starfsgetumat. Og hvað gerðu fulltrúar Öryrkjabandalagsins? Húrra fyrir þeim, þeir stóðu upp og gengu út, sem segir mér aðeins þetta: Þeir voru raunverulega að verja hagsmuni öryrkja. En þeir sem hins vegar gera það ekki fá aldrei leið á því að benda á það að öryrkjar geti sjálfum sér um kennt að hafa ekki fengið þessa frábæru hækkun og gæsku sem kom fram í breytingu á lögunum þann 1. janúar 2017. Þau gengu út, þau sem sagt kokgleyptu það ekki að hópur öryrkja yrði þvingaður til starfsgetumats þrátt fyrir að ekkert lægi því til grundvallar að möguleiki væri á að vita hvort nokkur væri að koma eða fara í þeim efnum.

Þetta frumvarp sem við erum að tala um hér í dag byggist fyrst og síðast á því sem þau kalla virknistyrk, sem sagt á starfsgetumati. Þetta er eins og með önnur gildishlaðin hugtök sem gjarnan eru tekin hér í þessum æðsta ræðustóli og svona almennt í umræðunni ef þau þykja vera óþægileg — svona eins og LÍÚ er núna SFS af því að það var orðin svo léleg ásýnd á Landssambandi íslenskra útvegsmanna, græðgisvæðingin og kvótakóngarnir og Tortóla og skattaskjól, þannig að: Æ, SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, það lítur betur út á blaði. En þetta er nákvæmlega sami peningurinn. Það er alveg eins með þetta. Það sem þau kalla hér í dag virknistyrk er ekkert annað en starfsgetumat, hvorki meira né minna. Allt í lagi, það er enginn á móti því að fólk sem er bært til þess að sinna einhverjum störfum geri það. Það fólk á ekki að vera á framfæri íslenskra skattgreiðenda. Ef það getur hjálpað sér sjálft, þá á fólk að sjálfsögðu að gera það.

Í sex ár höfum við í Flokki fólksins ævinlega mælt fyrir frumvarpi um að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Alltaf hefur það verið fellt. Svo erum við alltaf að mæla fyrir frumvarpi sem veitir öryrkjum tækifæri til þess að bjarga sér sjálfir með því að fara út á vinnumarkað á eigin forsendum, ekki eitthvert sérfræðimat sem enginn veit hvernig samanstendur, samanber þetta frumvarp sem liggur hér fyrir Alþingi Íslendinga í dag — enginn. Það er eins þegar við erum að koma með breytingartillögur og hæstv. ráðherrar mæta hér upp í ræðustól og segja: Nei, því miður, það er ekki nokkur leið að samþykkja þetta vegna einhverra lagatæknilegra annmarka á málinu. Ef einhverjir annmarkar eru á einhverju máli þá eru annmarkar á því máli sem við erum að fjalla hér um, risastóran hóp öryrkja. Eina ferðina enn er ráðist ómaklega á þennan hóp og ekki enn búið að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Þeir byrjuðu á því að bíta hausinn af skömminni snemma á árinu þegar tilkynnt var um að þeir ætluðu að gera aðför að fötluðu fólki sem var að vinna á vernduðum vinnustöðum. Það áttu allir að fara á almennan vinnumarkað og Vinnumálastofnun átti að sjá til þess að koma öllu fötluðu fólki á almennan vinnumarkað. Ég bara spyr: Hvað er á milli eyrnanna á fólki sem ímyndar sér að fatlað fólk, mismunandi mikið fatlað, geti gengið hér inn á almennan vinnumarkað? Hvers lags eiginlega ranghugmyndir eru hér á flugi? Það er eitt að láta sig dreyma um að allir verði heilbrigðir einn daginn og að allir geti bara farið út á almennan vinnumarkað en það er annað að horfast í augu við staðreyndir. Og staðreyndirnar eru þær að einstaklingar sem eru mjög fatlaðir og eru að vinna á vernduðum vinnustöðum, þeir eiga ekkert erindi, jaðarsettir, á almennan vinnumarkað þar sem í rauninni enginn vill heldur ráða þá í vinnu nema á þeim tíma sem ríkið mun borga með þeim. Þetta er vitað. Það er verið að svipta þau öryggi, sjálfstæði og vellíðan af því að geta verið að vinna á sínum vernduðu vinnustöðum.

Þetta almannatryggingafrumvarp sem við erum að tala um hér og á að auka svo mikið framfærslugetu öryrkja — alveg 385.000 kr., hallelúja, fyrir skatt. Við skulum átta okkur á því að allt það sem hér er talað um í krónum og aurum er fyrir skatt. Við höldum áfram að skattleggja fátækt fólk. Það er staðreynd sem ekki verður umflúin. Ég hef lifað í þessu öryrkjakerfi sem lögblindi einstaklingurinn sem ég er. Ég hef þurft að framfleyta fjölskyldunni minni á þessum aumu framfærslugreiðslum sem í mann hefur verið fleygt, með fjögur börn, á sama tíma og maðurinn minn var vegna læknamistaka handleggsbrotinn í sex ár. Ég veit nákvæmlega hvernig það er að láta klippa lappirnar neðan af fjölskyldunni og þurfa að reiða sig á ölmusu frá þessu fólki sem ræður hér ríkjum á hinu háa Alþingi. Og það get ég aðeins sagt: Ég mun aldrei treysta þeim til að gera bætur og betrumbæta það kerfi sem öryrkjar þurfa í raun og veru að búa við í dag. Það er enginn grunnur komin fyrir það hvernig á að meta fólk til virkni. Það eru engin störf sem eru tilbúin fyrir fólk sem verður metið til virkni. Það er í rauninni allt saman galtómt. Þetta er fullt af næstum því engu.

Ég ætla aðeins að segja það, fyrst ég er komin í ham, að ég næ eiginlega ekki utan um það þegar verið er að gera kjarasamninga, þegar ríkið kemur að kjarasamningum og stígur inn í kjarasamninga af allri sinni gæsku, setur inn einhverja milljarða til þess að greiða fyrir þeim kjarasamningum, að þeir milljarðar skuli vera teknir af hækkun á framfærslu öryrkja. Það var búið að flýta því. Öryrkjar áttu að fá sína hækkun 1. janúar næstkomandi. Nei, það er búið að seinka því til 1. september 2025 vegna þess að þeir tæpu 11 milljarðar sem áttu að fara í það að hækka framfærslu öryrkja, þeir fara í að greiða fyrir kjarasamninga sem ríkið gerði núna á dögunum. Það kemur fram á bls. 54 og 65 í fjármálaáætlun sem við vorum að samþykkja hér í dag. Að vísu samþykktum við í Flokki fólksins hana ekki, ég skal viðurkenna það, en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er alls konar umbúnaður, það eru alls konar umbúðir sem gusað er út úr sér héðan úr þessum ræðustóli. Það er reynt að telja fólki trú um allt annað en raunveruleikann.

Ég velti því fyrir mér, hvernig á öryrki — við skulum taka dæmi um einstæða móður með tvö börn. Hvernig á hún að geta lifað af, við skulum segja að hún fengi útborgað eftir skatt 360.000 kr. með heimilisuppbót og öllu því? Hvernig á hún að geta leigt sér íbúð og alið önn fyrir börnunum sínum? Hún getur það ekki. Börnin hennar verða jaðarsett. Börnin hennar fara í hóp þeirra 44% vaxandi fátæktar fyrir börn sem nú þegar hefur átt sér stað í boði þessarar ríkisstjórnar þar sem fátækt íslenskra barna hefur vaxið um 44% á síðustu sjö árum. Og fyrir þann tíma var víst ábyggilega nóg fátækt fyrir sem varð þess valdandi að ég stofnaði Flokk fólksins. (Forseti hringir.) En við í Flokki fólksins munum aldrei, aldrei vera á grænum takka við þetta frumvarp.