154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna framhalds á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Nefndin hefur fjallað um málið og er ítarleg greinargerð í nefndaráliti sem liggur frammi og er öllum aðgengilegt.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þrennum lögum sem fela í sér stuðningsaðgerðir vegna náttúruhamfara. Í fyrsta lagi felur frumvarpið í sér tillögu um að gildistími laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ verði framlengdur út árið 2024. Jafnframt er lagt til að styrkfjárhæðir geti orðið umtalsvert hærri fyrir tímabilið frá júlí 2024 til og með desember 2024. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita sérstakan húsnæðisstuðning út árið á grundvelli laga um sérstakan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Loks er í þriðja lagi lagt til að það tímabil sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er ætlað að ná til verði framlengt til 31. ágúst 2024.

Ég vil gera stuttlega grein fyrir breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar en vísa annars til ítarlegs nefndarálits þar um.

Þegar lögin tóku upphaflega gildi var mælt fyrir um þriggja mánaða umsóknarfrest um sérstakan húsnæðisstuðning. Með breytingalögum nr. 5/2024 láðist að mæla fyrir um þriggja mánaða umsóknarfrest og varð hann þarf af leiðandi einn mánuður. Meiri hlutinn leggur til að úr þessu verði bætti þannig að umsóknarfrestur verði til 31. mars 2025. Með því verður hann aftur þrír mánuðir eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Hvað varðar rekstrarstyrki segir í umsögn atvinnuteymis Grindavíkur að þegar frumvarpið var kynnt á samráðsfundi atvinnuteymis með fyrirtækjum í Grindavík hafi komið fram athugasemdir um að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þyrftu að gilda afturvirkt. Nefndin tekur undir þetta og leggur til að úrræðið gildi afturvirkt til nóvember 2023 en þá hófust náttúruhamfarir við Grindavík. Með þessari ívilnun er komið betur til móts við fyrirtæki í Grindavík og tekið mið af því að þau hafa þurft að bera aukinn rekstrarkostnað vegna náttúruhamfaranna samhliða tekjufalli. Með afturvirkni rekstrarstyrks er um verulega hækkun að ræða, eða sem nemur allt að 290 millj. kr., og er það okkar von að þannig nýtist styrkurinn enn betur til að mæta rekstrartapi rekstraraðila.

Einnig vil ég taka fram að í nefndaráliti eru stjórnvöld hvött til að vinna áfram af fullum krafti til að veita atvinnulífinu í Grindavík fjölbreyttan stuðning. Að mínu áliti skiptir miklu máli að stjórnvöld leiti leiða til þess að skuldir fyrirtækja í Grindavík verði frystar hjá þeim sem það kjósa. Einnig þarf að móta úrræði sem nær til þeirra rekstraraðila sem ekki eru með starfsmenn á launaskrá. Bjóða þarf rekstraraðilum í Grindavík upp á óháða, gjaldfrjálsa rekstrarráðgjöf, auk þess sem kynna þarf mun betur þau úrræði sem þessum fyrirtækjum stendur til boða.

Ég segi það alveg skýrt, virðulegi forseti, að við þurfum að styðja enn betur við fyrirtæki í Grindavík. Hér eru góð skref en meira þarf að koma til. Það er því mjög mikilvægt að í haust liggi fyrir útfærsla á láni með ríkisábyrgð auk þess sem leitað verði leiða til þess að þau fyrirtæki, eins og ég nefndi hér áðan, sem ekki eru með starfsmenn á launaskrá geti fengið rekstrarstuðning frá stjórnvöldum.

Ég hef hér stuttlega farið yfir breytingartillögur meiri hlutans, virðulegi forseti. Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir í nefndaráliti. Undir það álit rita, ásamt þeim sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Sigríður Elín Sigurðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. — Ég hef lokið máli mínu.