154. löggjafarþing — 131. fundur,  22. júní 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[23:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á breytingartillögu sem kemur til atkvæðagreiðslu hér rétt á eftir sem snýr að því að taka það verkefni út af borðinu sem snýr að kröfugerð ríkisins til eyja, hólma og skerja landið um kring, svokallaðs svæðis 12, sem hefur vakið töluverða umræðu eftir að kröfugerð kom fram. Það hefur verið upplýst hér að nú sé unnið að því í fjármálaráðuneytinu að gera einhverja miklu umfangsminni kröfugerð heldur en upphaflega var gerð. Ég held að við þingmenn ættum að sammælast um að taka verkefnið bara út af borðinu, fella þetta niður. Þetta voru ekki áformin þegar lögin voru sett í upphafi. Þetta kemur inn með breytingunni 2020. Ég held að það væri mjög hreinlegt fyrir okkur öll að samþykkja þessa breytingartillögu og láta af þessari ásælni í eyjar, hólma og sker landið um kring. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)