154. löggjafarþing — 132. fundur,  23. júní 2024.

þingfrestun.

[00:01]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Hv. alþingismenn. Brátt verður þessu löggjafarþingi, hinu 154., frestað og fram undan eru þinghlé og sumarleyfi.

Þinglok verða nokkru síðar nú en á síðasta þingi og er ástæðan m.a. tveggja vikna hlé sem var gert á þingstörfum í vor sem leið vegna forsetakosninga sem fóru fram 1. júní sl. Fyrir utan þetta kosningahlé gengu þingstörf fyrir sig í samræmi við þingsköp og starfsvenjur hér á Alþingi.

Á þessu þingi samþykkti Alþingi 112 lagafrumvörp og 22 þingsályktanir voru gerðar. Ráðherrar hafa svarað 361 fyrirspurnum skriflega og 58 fyrirspurnum munnlega og þar að auki svöruðu ráðherrar 321 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnatímum. Margt fleira mætti nefna um hina margþættu starfsemi Alþingis á þessu löggjafarþingi en ég læt þetta nægja enda er hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um þingstörfin og afrakstur þeirra á vef Alþingis.

Ég vék áðan að forsetakosningum og frá því er að segja að venju samkvæmt mun embættistaka forseta Íslands fara fram hér í Alþingishúsinu 1. ágúst nk. Þessi venja er einu ári yngri en lýðveldið sem nú fagnar áttræðisafmæli. Fyrsta forsetakjör lýðveldissögunnar fór fram á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum er lýðveldið var sett á stofn, 17. júní 1944, og þingmenn kusu jafnframt forseta Íslands. Forseti Íslands var þá kjörinn til eins árs og gert var ráð fyrir almennum forsetakosningum árið 1945. Til þeirra kom ekki þar sem Sveinn Björnsson, forseti Íslands, var einn í framboði og sjálfkjörinn. Embættistaka hans sem þjóðkjörins forseta Íslands fór fram 1. ágúst 1945 hér í Alþingishúsinu. Æ síðan hefur embættistaka forseta lýðveldisins farið fram hér í þingsalnum og fer vel á því.

Ýmsir viðburðir hafa verið haldnir til að minnast 80 ára afmælis lýðveldisins og fleiri eru áformaðir allt til ársloka. Stjórnarráðið hefur haft veg og vanda af skipulagningu hátíðarhalda á afmælinu en Alþingi hefur lagt þessu máli lið með ýmsum hætti og mun svo verða allt afmælisárið.

Árið 1930 var haldin á Þingvöllum vegleg hátíð til að minnast 1000 ára afmælis Alþingis. Nú er árið 2024 og því ekki nema sex ár þar til Alþingi verður 1100 ára, elsta löggjafarstofnun lýðræðisríkja sem enn starfar og á sér nær samfellda sögu að baki. Þessara merku tímamóta hlýtur að verða minnst svo sem vert er. Ég nefni þetta merkisafmæli okkar löggjafarsamkomu til að vekja athygli á því að það nálgast og ekki seinna vænna að huga að undirbúningi þess.

Starfsáætlun næsta löggjafarþings, hins 155., hefur þegar verið samþykkt í forsætisnefnd og hefst næsta þing þriðjudaginn 10. september. Hér verður stór viðburður á haustþingi þegar þing Norðurlandaráðs verður haldið dagana 28.–31. október. Þetta þinghald er umfangsmikið og margbrotið verkefni og mun undirbúningur þess og þinghaldið sjálft án efa setja svip sinn á starfsemina hér næsta haust.

Í vetur höfum við tekið í notkun nýtt húsnæði, Smiðju, og það er mér ánægjuefni að greina frá því að skömmu eftir þingsetningu í haust, 14. september, er stefnt að opnu húsi í Smiðju og öðrum húsum þingsins og munu gestir okkar þá geta svipast um í hinum nýju húsakynnum Alþingis. Þessi viðburður verður tengdur lýðveldisafmælinu.

Við lok þinghaldsins færi ég ykkur, alþingismenn, þakkir fyrir samstarfið og varaforsetum þakka ég sérstaklega góða samvinnu við stjórn þingfunda. Formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokka þakka ég einnig þeirra framlag og góða samvinnu. Ég flyt skrifstofustjóra Alþingis og starfsfólki þingsins þakkir mínar fyrir góða samvinnu og gott starf í hvívetna.

Ég óska þeim sem hér starfa, hinum kjörnu fulltrúum og starfsliði skrifstofu Alþingis, velfarnaðar og ánægjustunda í sumar.