154. löggjafarþing — 132. fundur,  23. júní 2024.

þingfrestun.

[00:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna vil ég færa forseta og varaforsetum þakkir fyrir samstarfið í vetur. Einnig þakka ég forseta hlý orð í okkar garð og ekki síður fyrir góða samvinnu við okkur þingflokksformenn.

Venju samkvæmt hefur gengið á ýmsu í þingstörfunum í vetur. Það hefur oft blásið hressilega, þá gjarnan úr fleiri en einni átt í einu og það á sama tíma. Það er á tímum sem þessum, þegar alltaf er allra veðra von, sem reynir ekki síst á færni forseta við að stýra skútunni og þar hefur tekist vel til. Innsýn forseta í þá staðreynd að pólitískir stormar lyppast gjarnan niður við löng fundarhöld hefur líka reynst ómetanleg [Hlátur í þingsal.] og hafi hann góðar þakkir fyrir.

Ég vil líka þakka starfsfólki þingsins sérstaklega fyrir vel unnin störf, velvild og skilning í garð okkar þingmanna og fyrir óendanlegan sveigjanleika og lausnamiðaða nálgun í hverri áskoruninni á fætur annarri. Við hefðbundin verkefni starfsfólks bættust á þessum þingvetri flóknir flutningar yfir í hina nýju Smiðju sem mörkuðu mikil tímamót. Sú glæsilega aðstaða sem okkur er búin þar mun breyta miklu fyrir þingstörfin og vonandi munu þess sjást jákvæð merki. Það er á okkar ábyrgð.

Ég ítreka þakkir okkar þingmanna til forseta, varaforseta og starfsfólks Alþingis og bið þingheim um að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Gleðilegt sumar.