154. löggjafarþing — 132. fundur,  23. júní 2024.

þingfrestun.

[00:10]
Horfa

Forseti Íslands ():

Forseti Alþingis. Ágætu alþingismenn. Komið er að kveðjustund. Senn sinni ég væntanlega mínu síðasta embættisverki í þessum sal. Ég þakka samstarf við ykkur síðastliðin átta ár, met mikils þá vinsemd sem þið hafið sýnt mér og þá virðingu sem þið hafið borið fyrir embætti forseta Íslands. Einnig minnist ég góðra kynna við þingmenn sem eru ekki hér nú auk allra ráðherra og þriggja forsætisráðherra í minni tíð, þeirra Sigurðar Inga Jóhannssonar, Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur.

Blessunarlega er samvinna forseta og þings í föstum skorðum, stjórnskipunin sæmilega skýr og rísi ágreiningur má finna lausnir sé vilji fyrir hendi. Alltaf má þó leita leiða til að gera enn betur, bæta mannanna verk. Hér og víðar hef ég áður minnst á endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins sem ber þess enn glögg merki, eins og Sveinn Björnsson sagði á sínum tíma, að vera sniðin „upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum“.

Þannig er sitthvað í þjóðhöfðingjakafla stjórnarskrárinnar með öðrum brag en æskilegt er; meint vald til að veita undanþágur frá lögum og annar atbeini sem er í raun ekki í verkahring forseta, kostnaðarsöm og úrelt ákvæði um verksvið handhafa forsetavalds og er þá ekki allt talið.

Einnig nefni ég augljósa kosti þess að sett verði lög um embætti forseta Íslands, m.a. til að tryggja stjórnsýslulegt sjálfstæði þess.

Forseti Íslands er eini fulltrúi þjóðarinnar sem kjósendur geta valið í beinni kosningu. Forsetinn er þjóðhöfðingi Íslendinga. Honum er ætlað að gegna „sameiningarskyldum við þjóðina“ svo að vitnað sé til orða Ólafs Ragnars Grímssonar. Ekki hef ég viljað vekja máls á því opinberlega á meðan ég sit sjálfur á Bessastöðum en í ljósi hinnar einstöku stöðu forseta Íslands í stjórnskipun og samfélagi tel ég fara vel á því að sá eða sú sem því embætti gegnir flytji ávarp til þjóðarinnar á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn frekar en forsætisráðherra eins og venja hefur verið. Þar fer stjórnmálaleiðtogi sem talar frá degi til dags fyrir hönd ríkisstjórnar eða síns flokks. Sá maður er því í öðrum sporum en forseti hverju sinni.

Kæri þingheimur. Fyrr í þessum mánuði minntumst við þess að áttatíu ár voru liðin frá stofnun lýðveldis. Hinn sautjánda júní 1944 kom fjöldi Íslendinga saman á Þingvöllum og fagnaði hinum merku tímamótum. Á Lögbergi kusu alþingismenn fyrsta forseta Íslands. Nú er nýlokið viðamiklum endurbótum á Þingvallabænum góða. Vel færi á því að forseti ætti þar tryggan og formlegan sess en þurfi ekki að vera gestur á tignum stað, t.d. þegar aðra þjóðhöfðingja ber að garði.

Vera má að þingmenn og landsmenn telji breytingar af þessu tagi til bóta og við hæfi að taka ákvörðun um þær á merku afmælisári. Ég leyfi mér í það minnsta að leggja þetta til nú þegar líður að lokum minnar embættistíðar.

Já, kaflaskil eru fram undan. Nýkjörnum forseta, Höllu Tómasdóttur, óska ég velfarnaðar á vandasömum vettvangi. Í kosningabaráttu var stundum tekist hart á eins og fyrri daginn. Alltaf er farsælast að heiðarleiki og drengskapur einkenni hvern leik. Að forsetakjöri loknu hafa Íslendingar jafnan fylkt sér að baki þeim sem bar sigur úr býtum og megi sú verða raunin áfram.

„Lýðræði er mikið og vandmeðfarið verðmæti.“ Þannig mælti Vigdís Finnbogadóttir þegar hún setti Alþingi fyrsta sinni. Áður hafði Ásgeir Ásgeirsson tekið í sama streng, klykkti hér út á sínum tíma með því að minna þingmenn á mikilvægi málamiðlana og friðsamlegra lausna í deilumálum. „Við kjósum heldur að telja höfuðin en kljúfa hausana,“ sagði forseti þá.

Og nú hef ég vitnað í orð allra minna forvera utan eins. „Enginn hefur gott af því að komast á það stig að fara að ímynda sér að hann sé ómissandi.“ Það sagði Kristján Eldjárn við lok sinnar forsetatíðar og þau orð eru enn í fullu gildi. Löngunin til að verða landi og þjóð að gagni má ekki breytast í vilja til að sitja sem allra lengst í embætti.

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Hér á hinu háa Alþingi er þungamiðja hins pólitíska valds. Hingað sækja ráðherrar umboð sitt en þingmenn sækja sitt umboð til þjóðarinnar. Því er svo brýnt að fólk geti borið traust til Alþingis, að hér sé unnið að almannaheill, hlúð að hagsmunum þeirra sem byggt hafa upp okkar öfluga samfélag og búið í haginn fyrir næstu kynslóðir.

Nú líður að frestun þingfunda eftir langa og stranga lotu undanfarna daga. Væntanlega eykst virðing Alþingis enn þegar vinnubrögð hér þykja til fyrirmyndar og öðrum til eftirbreytni.

Að svo mæltu óska ég þingmönnum og fjölskyldum þeirra alls velfarnaðar. Megi gifta fylgja Alþingi Íslendinga um alla framtíð. Landsmönnum öllum færi ég líka mínar bestu kveðjur og þakka samfylgdina síðustu ár. Ljúft er að geta lokið störfum glaður í bragði, í góðri sátt við sjálfan sig og aðra.

Að lokum lýsi ég yfir að gefið hefur verið út svofellt forsetabréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Að ég, samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til samþykkis Alþingis, fresta fundum Alþingis, 154. löggjafarþings, frá 21. júní eða síðar ef nauðsyn krefur, til 10. september 2024.

Gjört á Bessastöðum, 22. júní 2024.

Guðni Th. Jóhannesson.

________________

Bjarni Benediktsson.

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.“

Samkvæmt bréfi því sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því að fundum Alþingis, 154. löggjafarþings, er frestað.

Ég bið alþingismenn að minnast fósturjarðarinnar með því að rísa úr sætum.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]