155. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2024.

viðbragðsáætlanir og brunavarnir í samgöngumannvirkjum.

[15:47]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en það eru margar spurningar á lofti og ég fagna því sérstaklega að það eigi að taka þetta fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd á morgun. Vestfjarðagöng voru opnuð 1996, mikið fagnaðarefni, og breyttu þau stöðu samfélaga gríðarlega. Áætlanir um umferð um jarðgöngin á þeim tíma voru langt undir þeirri umferð sem nú er um göngin, eða um 1.000 bílar að meðaltali yfir sumarmánuðina. Þungaflutningar hafa aukist mikið og þegar stóru skemmtiferðaskipin eru í höfn geta rútuferðir orðið 130 í gegnum göngin á góðum degi. Ef bruni kemur upp í jarðgöngum geta göngin lokast í langan tíma, jafnvel nokkra daga. Eru til einhverjar varaleiðir þar sem við á? Þegar jarðgangaáætlanir samgönguáætlunar voru gerðar var forgangsröðun jarðgangakosta með hliðsjón af markmiðum samgönguáætlunar um greiðar samgöngur og öruggar samgöngur. Breikkun Vestfjarðaganga er nr. 6 á þeim lista — og sem lögð var fyrir á síðasta þingi. Þegar jarðgangaáætlun var gerð, var skoðuð sú áhætta sem getur komið upp ef kviknar í bíl í einbreiðum göngum?