155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

strandveiðar og atvinnufrelsi.

[14:03]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að lýsa því yfir að það fylgir hæstv. matvælaráðherra ferskari andblær en forvera hennar í starfi og það sem meira er, við erum sammála í ýmsu. M.a. kom það fram í ræðu hæstv. matvælaráðherra að það fór ekki á milli mála að hún taldi að það ógnaði ekki neinum fiskstofnum þó svo að handfæraveiðar yrðu gerðar frjálsar og þar erum við sammála. Engu að síður tók hæstv. ráðherra þá ákvörðun að stöðva handfæraveiðar strandveiðibáta þann 16. júlí síðastliðinn, en samkvæmt lögum er leyfilegt að stunda þær 12 daga í mánuði, 48 daga. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki brot á 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi að stöðva strandveiðar með þessum hætti án þess að almannahagsmunir krefjist? Í 75. gr. segir:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort stöðvunin hafi verið í samræmi við þau loforð sem stjórnvöld gáfu mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þegar þau kváðu upp þann dóm sem var þá eins og dómur Hæstaréttar, þ.e. að fiskveiðistjórnarkerfið stæðist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi ákvörðun hafi verið tekin í samræmi við stefnuskrá Vinstri grænna, eða lét hæstv. ráðherra undan þrýstingi SFS, eða mögulega voru það samstarfsflokkarnir, forystumenn í ríkisstjórninni, sem þrýstu á ráðherra um að stöðva veiðarnar, (Forseti hringir.) sem er alveg augljóslega, ef marka má orð hæstv. ráðherra sjálfs, (Forseti hringir.) ekki í samræmi við 75. gr. stjórnarskrárinnar.