155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[18:42]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér leikur forvitni á að vita og vil spyrja hæstv. ráðherra um í andsvari er í fyrsta lagi: Er í þessari stefnu sem hér er borin upp á Alþingi Íslendinga til ársins 2040 að finna einhvern stafkrók úr þeirri stefnu sem Vinstri grænir samþykktu á landsfundi fyrir síðustu alþingiskosningar? Ég hef farið í gegnum þá stefnu. Hér er ekki að finna t.d. stafkrók um það hvort veiðiheimildir eigi að vera til einhvers ákveðins tíma. Nei, nei, það er ekkert um það. Það er ekkert um það hvernig eigi að efla strandveiðar og ég held að það sé bara ekki orð um það í þessari stefnu. Það kemur ekki heldur fram í þessari stefnu sem er til ársins 2040, sem hæstv. matvælaráðherra leggur hér fram, hvort það eigi að stefna að því að auka 5,3% pottinn í 8–10% eins og stendur í stefnu VG. Jú, það er eitthvað minnst á að efla sjávarbyggðir og hafa þær öflugar en öll frumvörp sem Vinstri grænir hafa flutt og aðgerðir hæstv. fyrrverandi ráðherra, sem nú stefnir að því að verða formaður í Vinstri grænum, hafa miðað að því að þrengja að dagróðrabátum og auka við heimildir togbáta. Það skýtur ansi skökku við að flokkur sem kallar sig grænan komi hér og boði einhverja vernd á hafsvæðum þegar hann hefur lagt fram frumvarp sem varð að lögum sem fela það í sér að togarar með óheftu vélarafli geti verið að veiðum uppi í fjörum landsmanna.