155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[18:59]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Nú erum við að ræða hér sjávarútvegsstefnu þjóðarinnar til ársins 2040, hvorki meira né minna, en hér erum við að ræða um hvernig við förum með hina helstu auðlind þjóðarinnar. Ég vil minna á að þetta er hinn raunverulegi lífeyrissjóður þjóðarinnar en ekki þessar milljónir eða milljarðar eða þúsundir milljarða sem eru í einhverjum excel-skjölum. Þetta eru hin raunverulegu verðmæti. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að það sé bæði góð og ítarleg umfjöllun um þetta og síðan að skiptingin á þessari auðlind og hvernig við förum með hana sé gerð af sanngirni. Við höfum hér dóma Hæstaréttar, við höfum hér álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem segir einfaldlega að svo er ekki. Það er bæði farið á svig við atvinnuréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, 75. gr., og sömuleiðis jafnræðisregluna. Það er svolítið miður að þegar menn koma hérna og kynna stefnu til 2040 þá er ekki stafkrókur um þetta.

Við lestur á stefnu hæstv. ráðherra er rétt að velta því aðeins fyrir sér hvort þeir hafi bara tapað, týnt þeirri stefnu sem þeir báru 2021, hvort þetta hafi brunnið eða hvað er í gangi þarna? Það er ekki stafkrókur, eins og ég minntist á í andsvörum, um þau áhersluatriði. Jú, jú, vissulega er þetta samstarf en það er mjög aumt að sjá hér róttækan vinstri flokk — maður mætti halda að þetta sé orðinn miklu frekar einhvers konar kampavínskommúnismi sem birtist í þessu skjali hér. Það er í engu tekið tillit til þeirrar stefnu sem þeir báru upp fyrir kjósendur sína heldur er alfarið flutt hér stefna til ársins 2040 sem kemur úr ranni samstarfsflokkanna. Ef þeir hafa týnt henni þá er til afrit af henni norður á Sauðárkróki og ég tók hér ljósrit með mér suður og það er hér, Auðlindir hafs og stranda. Þetta er til. Þó að hæstv. ráðherra vilji gleyma þessari stefnu þá er hún til, en hin raunverulega stefna sem hefur verið rekin af fyrrverandi hæstv. matvælaráðherra hefur orðið til þess að margir af helstu baráttumönnum flokksins, sem hafa viljað breytingar fyrir sjávarbyggðirnar, eins og Lilja Rafney Magnúsdóttir varaþingmaður og Einar Helgason skipstjóri, hafa bara séð sitt ráð vænst að yfirgefa skútuna.

Ekki ætla ég að kenna núverandi hæstv. matvælaráðherra um hvernig komið er fyrir, alls ekki. Hún tekur einfaldlega við hræðilegu búi af hæstv. ráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, og jú, jú, hæstv. núverandi matvælaráðherra tók nokkur hænuskref í sumar í rétta átt og menn virtu það við ráðherra. En sú stefna sem hefur verið rekin fram að því hefur verið alfarið þvert á stefnu flokksins. Það er svolítið undarlegt að þegar flokkur hefur yfir ákveðnum málaflokki að ráða þá endurspeglist það ekki í neinum verkum hjá hreyfingunni þegar hún kemst til embættis.

Það er ekki að sjá að menn hafi stigið neitt skref í að mæta áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í stað þess að það væri gert voru búin til einhver leiktjöld, einhver vinna sem kallaðist Auðlindin okkar. Í stað þess að hæstv. ráðherra hefði farið, ráðherra Vinstri grænna, og sótt fólk innan úr hreyfingunni til að láta taka þátt í vinnunni þá var það ekki gert heldur var fenginn einn fyrirliðinn, kom beint úr því að vera forstjóri hjá stórútgerðinni. Annar var einn af þeim höfundum að sjávarútvegsstefnunni, m.a. aflareglu sem reiknaði fiskstofna og afla áratugi fram í tímann. Hann var bara þarna eins og áttaviti. Hann var, eins og maður segir, aðalheimildin fyrir því að þetta væri gott. Helsta verkið sem var sett sem fyrirmynd og ákveðin heimild um hvað þetta væri allt gott var kver sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra lét taka saman, einn af höfundum kerfisins, það var kverið sem var tekið saman og síðan var unnið hér svo vikum skiptir og komið fram með einhverjar bollaleggingar um þetta, hvernig þetta ætti að líta út. Það hefði svo sem verið sök sér ef það hefði verið tekið eitthvert málefnalegt mið af þeirri gagnrýni sem kom fram í vinnunni. Nei, henni var ekki einu sinni svarað efnislega, það er alvarlegt, heldur voru þeir látnir ráða stefnunni sem birtist í þessu skjali sem hafa haft rangt fyrir sér um áratugaskeið, því að það er alveg ljóst að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur haft veg og vanda af því að leiða umræðuna „faglega“ um hvert skuli stefna.

Það er rétt að líta aðeins á hvernig stefna Vinstri grænna hefur síðan birst í þeim lagafrumvörpum sem hafa komið fram. Það hefur verið m.a. í grásleppufrumvarpinu sem fól í sér það að grásleppan var sett inn í gjafakvótakerfið og það var á vakt Vinstri grænna. Skrápdýr voru sett inn í gjafakvótakerfið. Það var engin tímasetning á því hvenær þau leyfi renna út. Sömuleiðis var hér togurunum hleypt upp í fjöru með óheftu vélarafli, þannig að það er ósvífni þegar menn koma fram með falleg orð á þessu skjali og tala um eitthvað vistvænt og að kolefnisjafna og bla, bla, bla. Ef Vinstri græn væru í raun og veru að hugsa um hag þjóðarinnar myndu þau miklu frekar skoða allar leiðir til þess að efla dagróðrabáta vegna þess að þeir koma með verðmætari afla að landi en togskipin. Mér hefði þótt vænt um að sjá einhverja vísbendingu frá hæstv. ráðherra í þessari stefnu um að það ætti að feta þá leið. Jú, jú, það er talað um fyrirsjáanleika. Hver hefur fyrirsjáanleikinn verið? Hann hefur ekki verið hjá þeim smáu í greininni. Það hefur verið algerlega ljóst að strandveiðar og aðra þætti sem snúa að þeim minni í greininni er hægt að hafa með engum fyrirsjáanleika, menn bara reknir í land ef ráðherra dettur svo í hug, þrátt fyrir að það komi fram hér á Alþingi að ráðherra viti það mætavel að það séu engir almannahagsmunir í veði heldur einungis að það sé verið að passa upp á kerfið. Það er alveg kýrskýrt að kerfið hefur í hverri einustu tegund sem hefur verið kvótasett leitt til minni afla en áður og þegar menn eru að tala um árangur, besta kerfi í heimi, þá er það ómerkilegt vegna þess að það stenst enga skoðun og það held ég að ráðherra ætti að skoða.

Það er margt fleira í þessari stefnu sem er rétt að velta fyrir sér. Þegar menn eru að tala um að það eigi að vernda 30% hafsvæðanna í kringum landið — verndun og fínt — hvernig fer það saman að hafa þá fyrir ári síðan, það er ekki lengra síðan, leitt það í lög að togskipum sé hleypt með óheftu vélarafli upp í fjöru? Þessi stefna Vinstri grænna er til skammar og setur óorð á hreyfinguna að ráðamenn flokksins skuli vera lentir í þeim sporum að bera hér á borð fyrir þjóðina (Forseti hringir.) stefnu samstarfsflokksins þar sem ekki er hægt að finna neitt (Forseti hringir.) sem minnir á þá stefnu sem flokkurinn bar upp í síðustu kosningum. (Forseti hringir.) Verður það aumara, herra forseti?

(Forseti (GRÓ): Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutímann.)