155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[19:14]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri áhugavert að sjá hvernig hlutirnir myndu þróast ef hv. þingmaður væri einráður um stefnu í sjávarútvegsmálum og hvort þau góðu gildi sem koma beint úr stefnu VG fengju að fljóta með eða hvort þetta snerist bara um einn hóp, ákveðna tegund sjómanna, og hvort allt púðrið væri þar. Við í okkar stefnu stöndum með strandveiðisjómönnum og tekin voru skref í sumar til að mæta þeim. Mér finnst dálítið bratt að segja að hér hafi verið tekin gríðarlega vond og stór skref af fyrrverandi ráðherra. Alveg eins og hv. þingmaður kemur inn á var það auðvitað atvinnuveganefnd sem bar upp þetta mál. (SigurjÞ: Það var beiðni.) Ég hef ekkert um að það hafi verið vegna einhverrar beiðni. (SigurjÞ: …) (Forseti hringir.) (Forseti (GRÓ): Forseti minnir á: Ekkert samtal í salnum.) Atvinnuveganefnd hélt málinu uppi og málið var samþykkt hér í þingsal á forsendum atvinnuveganefndar en ekki hæstv. ráðherra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að lokum ef hann er búinn að fara í gegnum þessi skjöl og í gegnum þessa viðamiklu vinnu eins og t.d. Auðlindin okkar er: Er einfaldlega ekkert gott í neinu því sem er verið að gera í ráðuneyti matvæla sem lýtur að sjávarútvegi? Sér hann enga ljósa punkta koma þar fram eða er ástæðan þessi þráhyggjukenndi áhugi fyrir VG sem kemur fram í öllum ræðum hv. þingmanns? Snýst þetta um VG eða snýst þetta raunverulega (Forseti hringir.) um sjávarútvegsmálin á Íslandi og um að bæta kerfið sem við erum auðvitað að vinna að?

(Forseti (GRÓ): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutímann.)