155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[19:19]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Það eru ákveðin nýmæli í íslenskri stjórnsýslu í Stjórnarráðinu að lögð sé fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu stefna ríkisstjórnarinnar í hinum og þessum málum og þetta sjáum við aukast töluvert milli ára. Hér erum við með þingsályktunartillögu um sjávarútvegsstefnu til ársins 2040 frá hæstv. matvælaráðherra. Það sem ég vil gera fyrst að umtalsefni er þýðing slíkrar þingsályktunartillögu hér fyrir þinginu og hvaða þýðingu hún hefur ef hún er samþykkt eða ekki samþykkt. Það er svo að þá stefnu sem gildir um sjávarútveg eða hvað eina sem varðar okkar samfélag er að finna í gildandi lögum hverju sinni. Það er einfaldlega þannig, hana er að finna í gildandi lögum hverju sinni. Það kann að vera að einstaka ráðherra eða ríkisstjórn hverju sinni hafi á stefnuskrá sinni að breyta lögum. Gott og vel. Þá skal það lagt fyrir þingið og lögum breytt.

Stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum kemur fyrst og fremst fram í þeim stjórnarsáttmála sem lá fyrir árið 2021. Þar er kveðið á um það sem átti að gera á þessu kjörtímabili. Það átti að koma á fót nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og, herra forseti, meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnarkerfisins. Þetta var það sem ríkisstjórnin lagði upp með í byrjun kjörtímabilsins. Í framhaldinu var sett á fót gríðarlega umfangsmikil samráðsnefnd sem bar heitið Auðlindin okkar. Hún vann mikla vinnu og hélt marga fundi og skilaði af sér mikilli skýrslu. Þar var ekki að finna mat á þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnarkerfisins og það var eiginlega aðaluppleggið þegar við erum að ræða um kosti og galla núverandi fiskveiðistjórnarkerfis. Stefna í sjávarútvegi er mörkuð af þeirri löggjöf, löggjöf um stjórn fiskveiða við strendur Íslands. Það er það sem skiptir öllu máli, að við tökumst á um þá löggjöf með einum eða öðrum hætti og tökumst á um kosti þess kerfis og ókosti.

Herra forseti. Að þessu sögðu þá veltir maður fyrir sér: Hverju breytir þessi tillaga til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu til ársins 2040? Og af hverju 2040? Af hverju ekki 2060 eða 2080? Í grunninn hefur núverandi sjávarútvegsstefna samkvæmt löggjöfinni sem hefur verið í gildi, verið í gildi síðastliðin 34 ár. Margir hafa verið ósáttir við þá stefnu og margir hafa viljað viðhalda þeirri stefnu sem birtist í þeirri löggjöf. Það er tekist á um það í kosningum og það er tekist á um það í þessum þingsal hvort og að hversu miklu leyti eigi að breyta þeirri löggjöf.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur hérna fyrir og ég ætla að gera að umtalsefni í síðari hluta ræðu minnar, er að finna þrjá kafla. Það er fyrst framtíðarsýn í 16 liðum. Það er kafli um gildi í fjórum liðum og svo eru það áherslur í átta liðum. Heilt yfir er þetta mjög almennt orðað og í sjálfu sér er hægt að tengja margt af því sem þarna kemur fram við það sem þegar er í íslenskum sjávarútvegi og gott betur, er gert mjög vel í íslenskum sjávarútvegi. Í sjálfu sér er erfitt að sjá hér einhver sérstök nýmæli. Það er erfitt að átta sig á því hvaða þýðingu þetta hefur í reynd. Hvaða þýðingu hefur það í reynd að tillaga sem þessi sé samþykkt?

Það kann að vera að hæstv. matvælaráðherra hafi stefnu sem byggi á þessu hér og að ríkisstjórnin hafi stefnu sem byggir á þessu hér. Fyrir mitt leyti mætti hæstv. matvælaráðherra einfaldlega flytja þinginu skýrslu um að þetta væri sú stefna sem ríkisstjórnin væri að vinna eftir. Það kæmi þá til kasta þingsins ef eitthvað bitastætt væri á ferðinni í formi lagafrumvarpa, hvort einhver stefnubreyting í reynd væri að eiga sér stað. En gott og vel.

Það er heldur verið hér, herra forseti, að teygja lopann í þessari framtíðarsýn. Það væri hægt að draga þetta saman með miklu einfaldari hætti. Það sem skiptir máli fyrir íslenskan sjávarútveg er að auðlindin er endurnýjanleg, hún sé nýtt með hagkvæmum hætti í þágu allrar þjóðarinnar. Það þýðir að greinin er arðbær og samkeppnishæf á alþjóðlegum mörkuðum þannig að það sé einhverja arðsemi að hafa úr íslenskum sjávarútvegi, hann standist alþjóðlega samkeppni. Þetta er lykilatriði málsins. Ef þetta er það sem ríkisstjórnin er að fylgja eftir þá styð ég það heils hugar, ég styð það heils hugar að þetta sé það sem stefna skal að áfram með íslenskan sjávarútveg. Hér er sagt á grundvelli sjálfbærni. Það er þegar í lögum um stjórn fiskveiða. Það er þegar kveðið á um verndun og rannsóknir, að öll nýting auðlindarinnar við strendur landsins byggi á rannsóknum, byggi á umhverfislegum rannsóknum, vistfræðilegri nálgun á því hversu mikið hægt sé að nýta nytjastofnana þannig að þeir séu endurnýjanlegir. Þessi grundvallaratriði eru þegar til staðar. Þess vegna er erfitt að sjá hvaða nýmæli eru í reynd í boðaðri þingsályktunartillögu um sjávarútvegsstefnu til ársins 2040 sem Alþingi á að horfa sérstaklega til. Hvað er það sem er nýmæli í þessu? Það kann að vera að það séu nokkur atriði þar sem er verið að teygja sig örlítið langt og er tengt öðrum málaflokkum. Það kann að vera og það er algjörlega óútrætt í þessum sal, herra forseti. Hvað þýða alþjóðlegar skuldbindingar um verndun 30% hafs? Hvað þýðir það í reynd? Hvað er verið að tala um? Þessi atriði eru algerlega óljós. Til hvers þarf að vernda 30% af hafsvæðinu ef það steðjar t.d. engin umhverfisógn að hafinu í kringum Ísland? Ég er ekki að segja, herra forseti, að það séu ekki áskoranir í hafinu í kringum strendur landsins, alls ekki. En til hvers að vernda 30% og hvað felst í því? Eru þá veiðar á þessu tiltekna svæði algjörlega bannaðar? Hvað ef það stangast á við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem myndi segja: Það er allt í lagi að veiða á þessu tiltekna svæði af því að það er engin ógn sem steðjar að. Þessi atriði, herra forseti, finnst mér vera mjög óljós.

Herra forseti. Það væri hægt í löngu máli líka að fara yfir mikilvægi íslensks sjávarútvegs, mun lengra máli. Það er ágætistilefni eitt og sér að ræða um mikilvægi íslensks sjávarútvegs við framlagningu þessarar þingsályktunartillögu. Það sem mestu máli skiptir er að íslenskur sjávarútvegur er höfuðatvinnugrein þjóðarinnar. Hann er grundvöllur alls velferðarsamfélags sem Ísland hefur byggt upp á undanförnum áratugum. Hann er framsækinn, nútímalegur og arðbær og stenst alþjóðlega samkeppni. Það er hið jákvæða og það er hið góða. Það er reyndar merkilegt, herra forseti, að í þessari greinargerð er lítið fjallað um þann mikla árangur sem við blessunarlega höfum náð í íslenskum sjávarútvegi.