155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[19:29]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa því yfir að ég er sammála hv. þingmanni um að það séu engin nýmæli sem skipta máli í þessu plaggi sem við erum að ræða hér. Það er ekkert sem skiptir nokkru máli nema þá að þetta er kannski hálfpínleg yfirlýsing Vinstri grænna, tel ég vera. Það er óþægilegt að vera með einhverja stefnu sem inniheldur í litlu sem engu þá stefnu sem var borin upp í síðustu kosningum. En mér leikur forvitni á að vita, af því að það kom tvisvar eða þrisvar fram í máli hv. þm. Teits Björns Einarssonar að íslenskur sjávarútvegur væri í einhverri gríðarlegri alþjóðlegri samkeppni: Hver er hún? Eru einhverjir útlendingar hér á miðunum? Staðreyndin er: Auðvitað ekki. Þeir sitja einir að þessu og hafa hér einokunarrétt. Þetta er í rauninni engin samkeppni. Eru fiskvinnslur í einhverri samkeppni um að komast í hráefnið hjá íslenskum sjávarútvegi? Jú, það eru þeir sem hafa ekki yfir útgerð að ráða. En ég vil nefna að sjávarútvegsrisarnir fá hráefnið tugum prósenta ódýrara en þeir sem eru í raunverulegri samkeppni. Og þeir sem þurfa að kaupa hráefnið dýrara verði eru jafnvel ekkert að standa sig síður á erlendum mörkuðum, bara betur þess vegna. Það væri því svolítið forvitnilegt að heyra af þessari samkeppni og síðan hvort hv. þingmaður vilji jafnvel, eins og mér heyrist á sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, auka samþjöppunina enn þá frekar í greininni.