155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

Störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Við þurfum að tala um vinnumansal og félagsleg undirboð. Í útspili sem Samfylkingin kynnti síðasta vor setjum við fram þrjár grundvallarkröfur um verðmætasköpun, innviðauppbyggingu og heilbrigðari vinnumarkað á Íslandi. Ein af þessum kröfum er krafan um íslensk kjör á íslenskum vinnumarkaði. Þar setjum við fram ákveðnar aðgerðir sem við viljum ráðast í til að styrkja ráðningarsamband. Í kröfunni útlistum við aðgerðir til að taka á undirboðum og hvetja til beins ráðningarsambands, svo sem með því að herða eftirlit með starfsmannaleigum, innleiða lög um keðjuábyrgð í öllum stærri verklegum framkvæmdum, efla heimildir til vinnustaðaeftirlits og lögfesta skýr refsiákvæði vegna vinnumansals. Samfylkingin lítur á þetta sem eitt af lykilverkefnum næstu ríkisstjórnar; að grípa til aðgerða til að auka framleiðni og verðmætasköpun um allt land en standa um leið þétt við bak hins vinnandi manns með sterku velferðarkerfi og traustum stofnunum sem tryggja heilbrigðan vinnumarkað.

Í dag er það fyrst og fremst verkalýðshreyfingin sem sinnir vinnustaðaeftirliti. Þetta gerir hún samkvæmt lögum frá 2010. Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka lagðist gegn þessum lögum, greiddi atkvæði gegn þeim á sínum tíma. Þetta eru lög sem þarf að uppfæra í takti við tímann en það er ekki síst framkvæmdin og það sem tekur við þegar alvarleg mál koma upp sem hefur algerlega misfarist hjá sitjandi ríkisstjórn. Það er vegna veikburða stofnana. Ríkisstjórninni hefur mistekist fullkomlega að tryggja lögreglunni, Skattinum og Vinnumálastofnun bolmagn til að sinna þessum málum sem skyldi. Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru t.d. bara þrjú stöðugildi sem rannsaka mansal og lögbrot gegn launafólki. Það segir allt sem segja þarf. Meðal annars þess vegna lítum við (Forseti hringir.) í Samfylkingunni á það sem jafnaðarmál að styrkja löggæslu í landinu, enda vitum við á hverjum það bitnar helst þegar lögreglan (Forseti hringir.) er undirmönnuð og ákæruvaldið vanrækt. Það kemur harðast niður á fólki í viðkvæmri stöðu.

(Forseti (OH): Forseti minnir á að ræðutíminn er tvær mínútur í störfum þingsins.)