155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

Störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fjárhagslegt ofbeldi birtist í ýmsum myndum. Of lengi á sjúkrahúsi vegna veikinda — þér er refsað gróflega fjárhagslega fyrir að vera of veikur. Það er hent í viðkomandi nokkrum þúsundköllum sem vasapeningum og hann fer á hausinn fjárhagslega í boði ríkisins. Húsnæðiskostnað, tryggingar, rafmagn, lyfjakostnað og fleira — reikningar — hefur viðkomandi ekki ráð á að borga vegna þess að hann hefur verið of lengi inni á sjúkrastofnun og vegna alvarlegra veikinda, sem er auðvitað dauðans alvara. Að lenda í slysi og þurfa á NPA-aðstoð, þar er annað dæmi um vanrækslu hins ómannúðlega kerfis sem ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafa byggt upp. Hreppaflutningar eru fyrst í boði og það inni á hjúkrunarheimili aldraðra fyrir 40 ára einstaklinga. Ef ekki þá er lágmarksþjónusta og aðstandendur hans látnir leysa málið sem kerfið telur vera of erfitt fyrir útlært heilbrigðisstarfsfólk að leysa. Kostnaður, segir sveitarfélagið og bendir á ríkisstjórnina. Kostnaður, segir ríkisstjórnin og bendir á að sveitarfélagið. Og á sama tíma brennur fjölskyldan vegna getuleysis möppudýra kerfisins. Meiri hreppaflutningar fyrir háaldrað fólk sem þarf nauðsynlega á hjúkrunarrýminu að halda vegna veikinda eða slysa. Nei, ættingjar geta einnig séð um þetta, segir kerfið og býður upp á heimahjúkrun einu sinni til tvisvar í viku eða símalínu hjá island.is en ekki hjá hagsmunafulltrúa aldraðra eins og samþykkt var.

Börn. Eitt barn í bið eftir þjónustu er einu barni of mikið, hvað þá tugir barna. Og ekki bara tugir, ekki 100 heldur 1.000 börn eru þegar á bið eftir þjónustu sem er þeim lífsnauðsynleg. En á sama tíma erum við tilbúin til að setja 675 milljarða í einkarekna fjölmiðla, 6 milljarða í lúxusráðuneyti á dýrasta svæðinu í bænum, 20 milljarða bankahöll. En að sjá til þess að veikt og slasað og aldrað fólk fái þá þjónustu sem það á rétt á — nei.

Þetta er allt að koma.