155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

Störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Einn merkasti stjórnmálamaður landsins skrifaði ágæta grein, víðlesna grein, undir fyrirsögninni: Ég neita að pissa standandi. Í greininni fjallar hún um mikinn metnað ráðherra Sjálfstæðisflokksins í klósettmálum landsmanna. Í stuttu máli hafa þeir lagt til gríðarlegar breytingar á hollustuháttareglugerðinni sem mun hafa áhrif vítt og breitt um landið. Þær eru: Annaðhvort þarf að taka niður allar merkingar fyrir kynin eða hitt, það þarf að bæta við kynlausri snyrtingu. Þetta mun hafa gríðarlegan kostnað í för með sér, sérstaklega fyrir minni rekstraraðila. Ég get tekið sem dæmi félagsheimilið í Ríp, veitingahús vítt og breitt um landið, mögulega Tommaborgara o.fl. En þær eiga einnig við hér í Alþingishúsinu og ef við förum hér á snyrtingarnar þá sjáum við að það er ekkert verið að fara eftir þessum merkingum. Því kem ég hér í þennan ræðustól undir störfum þingsins og óska eftir liðsinni myndugs forseta þingsins og fá hann með mér í lið til þess að ráðherra sýni örlítið meiri mildi hvað varðar þessa reglugerð, m.a. með því að gefa einhverja tímafresti fyrir rekstraraðila til að bregðast við eða þá að láta reglugerðina gilda um nýja rekstraraðila. En hingað til hefur ráðherra skellt skollaeyrum við öllum tillögum um breytingar á þessu. Það kemur svolítið á óvart vegna þess að hér er básúnað um að ekki megi fara í gullhúðun, ekki megi gera óhóflegar kröfur. En þessu metnaðarmáli Sjálfstæðisflokksins má ekki breyta. Ég tel að með liðsinni forseta þingsins, Birgis Ármannssonar, þá muni mögulega vera hægt að fá hér fram breytingar sem munu koma minni rekstraraðilum vítt og breitt um landið til góða (Forseti hringir.) þannig að menn þurfi ekki að fara í stórfelldar breytingar á félagsheimilum til sveita.