155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

Störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Mig langar til að nýta þetta tækifæri í störfum þingsins til að ræða um störf þingsins. Stundum er sagt að glöggt sé gests augað. Ég er varaþingmaður og kem hingað ekki oft en það sem kemur mér dálítið á óvart í störfum Alþingis er hversu lítið þingmenn virðast velta fyrir sér kostnaði við lagasetningu. Ábatinn er oft ræddur — ég hef stundum á tilfinningunni að hann sé nokkuð ofmetinn — en kostnaðurinn mjög sjaldan. Sá eini kostnaður sem er hér til umræðu er kostnaður hins opinbera af því að framfylgja reglum. Það er aldrei rætt um kostnað almennings, kostnað fyrirtækja við að fara eftir reglunum, sem er líka kostnaður lagasetningar. Hvergi er þetta mikilvægara en á Íslandi. Ástæðan er sú að samfélagið er smátt. Engum dettur til hugar að beita sama skipulagi í smáu sveitarfélagi úti á landi eins og Reykjavíkurborg beitir í skipulagi sinna innri mála og það hefur einfaldlega með það að gera að það er erfitt að taka flókin kerfi og beita þeim á litlar einingar. Við gerum of mikið af því hér að mínu mati að taka gagnrýnislaust upp flókið fyrirkomulag sem hækkar smám saman kostnaðinn af því að búa á Íslandi.

Forseti. Það þurfa að verða breytingar á því hvernig við ræðum um lagasetningu og að við séum meðvitaðri um það í okkar ákvarðanatöku að henni fylgir kostnaður, ekki bara hjá hinu opinbera heldur líka úti í samfélaginu.