155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

Störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil nota tíma minn hér til að ræða eiginleg störf þingsins eða öllu heldur störf nefnda og þá sérstaklega störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en minni hluti nefndarinnar ákvað á vordögum að hefja frumkvæðisathugun undir því yfirheiti að nefndin myndi skoða svokallað lögmæti netsölu áfengis.

Forseti. Hér er um brot á þingsköpum að ræða að mínu viti. Þingsköp segja skýrt að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í frumkvæðisathugunum sé að skoða ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra. Ekkert slíkt er um að ræða í máli þessu, frú forseti. Það er ekki hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hlutast til um sakamálarannsóknir í þessu landi. Það er ekki hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að spyrja ákveðinna lögspurninga út í loftið og ég tala nú ekki um þegar borgarar þessa lands eru kvaddir fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að sitja í einhvers konar pólitískri yfirheyrslu hjá minni hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Netverslun áfengis er til skoðunar hjá til þess bærum aðilum og að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé að hafa pólitísk afskipti af því lögformlega ferli gagnrýni ég harðlega. Við Sjálfstæðismenn í nefndinni, ég og hv. þm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögðum fram bókun þess efnis. Við gagnrýnum að sjálfstæði ákæruvalds og dómsvalds sé þarna haft að engu. Það er alvarlegt þegar pólitíkin ætlar að hlutast til um sakamál í þessu landi.

En hér vil ég segja algjörlega skýrt að það er ekkert nema sjálfsagt að hafa skoðanir á netverslun áfengis. Hæstv. dómsmálaráðherra mun hér eftir nokkrar vikur koma fram með frumvarp um netsölu áfengis. Við munum taka þátt í þeirri umræðu eins og sjálfsagt er í þessari pontu. Við Sjálfstæðismenn munum viðra okkar skoðanir um að hér sé um sjálfsagða frelsisverslun að ræða sem ber að skýra lagagrundvöllinn á. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt. Það ræðum við í þessari pontu. En við misnotum ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í pólitískum tilgangi.