155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

útlendingar.

20. mál
[11:10]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, brottvísanir. Með mér á frumvarpinu er þingflokkur Flokks fólksins.

1. gr. laganna orðist þannig:

„Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Útlendingur nýtur ekki verndar skv. 1. mgr. ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur verið dæmdur, fyrir afbrot, til fangelsisvistar og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu. Útlendingur nýtur ekki heldur verndarinnar þegar svo háttar sem um ræðir í F-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.“

„2. gr. Við 1. mgr. 101. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við ákvörðun um brottvísun útlendings fellur alþjóðleg vernd hans úr gildi.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það má kannski nefna það að ég kom einmitt með þessa breytingartillögu við útlendingalöggjöfina í sumar, rétt fyrir þinglok, þegar við vorum með útlendingalögin og breytingar á þeim til meðferðar hér á Alþingi. Þá var talið að um einhverja lagatæknilega annmarka á breytingartillögunni væri að ræða og þess vegna ekki hægt að samþykkja hana. Ég veit ekki hvort þessir lagatæknilegu annmarkar hafa falið það í sér að það verði ekki endurtekið. Það leiddi náttúrlega af sjálfu sér af breytingartillögunni að sá sem hefði verið brottvísað af landinu vegna breytinganna nyti tæplega enn þá alþjóðlegrar verndar hér og hefði alls ekki stöðu flóttamanns. Hér er það sem sagt ígrundað sérstaklega fyrir þá sem gátu ekki gert sér í hugarlund hvað breytingartillagan fæli nákvæmlega í sér. Það er ástæða til að segja það, og ég endurtek það, að við ákvörðun um brottvísun útlendings fellur alþjóðleg vernd hans úr gildi. Ég vænti þess að þetta sé nóg til þess að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarflokkanna sjái ekki einhverja lagatæknilega örðugleika í hverju horni eins og virðist oft vera þegar þeim vefst tunga um tönn og eiga erfitt með að greiða atkvæði með því sem kemur frá stjórnarandstöðunni þrátt fyrir að það sé þeim raunverulega að skapi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er lagt fram til að bregðast við ákveðnum annmörkum á lögum um útlendinga sem gera það að verkum að stjórnvöld hafa ekki heimild,“ — við höfum sem sagt ekki heimild — „til að víkja úr landi einstaklingum sem framið hafa glæpi og njóta alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Áður voru ákvæði þess efnis í lögum, en við setningu nýrra laga um útlendinga árið 2016 féllu þau ákvæði brott. Er því lagt til að færa ákvæðin aftur inn í löggjöfina til að veita stjórnvöldum víðtækari heimildir til að brottvísa einstaklingum sem hafa hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi og framið glæpi eftir komu til landsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að við 42. gr. laga um útlendinga bætist ný málsgrein samhljóða 3. mgr. 45. gr. eldri laga um útlendinga, nr. 96/2002, sem kveður á um að flóttamaður njóti ekki verndar gegn brottvísunum í ákveðnum tilvikum, svo sem ef hann hefur gerst sekur um afbrot, eða ef hann er álitinn hættulegur öryggi ríkisins. Í 2. mgr. 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna er að finna sambærilega heimild. Sambærileg ákvæði eru einnig í útlendingalögum nágrannaríkja okkar, sbr. 31. gr. dönsku útlendingalaganna.“ — Og við skulum vona að það sé ekki mikið um lagatæknilega annmarka á þeirri grein hjá nágrönnum okkar og vinum í Danmörku. Við styðjum sem sagt við löggjöfina frá þeim. — „Lagt er til að í stað þess að fjalla um mjög alvarlegt afbrot, líkt og gert var í tíð laga nr. 96/2002, verði vísað til þess að einstaklingur hafi verið dæmdur, fyrir afbrot, til fangelsisvistar.“ — Við getum sagt að við séum í rauninni að útvíkka það frekar. — „Ekki tíðkast að vísa til mjög alvarlegra afbrota í íslensku réttarfari.“ — Þannig að ekki var talin ástæða til að vera með það orðalag hér. — „Með því að vísa til dóma þar sem einstaklingur hefur verið dæmdur til fangelsisvistar er hægt að ná sama markmiði án þess að það orki tvímælis hvaða tilvik falli undir ákvæðið.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að tekið verði fram með skýrum hætti að þegar ákvörðun er tekin um brottvísun einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar, þá falli sú vernd samhliða úr gildi.“

Virðulegi forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem ég kom ekki eingöngu fram með breytingartillögu um útlendingalöggjöfina fyrir hönd flokksins rétt fyrir þinghlé í júní síðastliðnum heldur er ég að koma hér inn með þetta frumvarp og gera það að einu af forgangsmálum Flokks fólksins. Eins og þeir vita sem hafa fylgst með dagskrá Alþingis, frá því að við komum hér saman klukkan hálfellefu í morgun, þá hefur það legið mjög á hjarta margra hv. þingmanna hvernig ástandið í samfélaginu er í raun og veru. Þá erum við að tala um mansal. Við erum að tala um skipulagða glæpastarfsemi þar sem lögreglan okkar er vanmönnuð, þar sem lögreglunni okkar er ekki gefið afl og mannskapur til að ráðast að rótum vandans heldur sjáum við að hér vex vandinn með degi hverjum.

Fljótlega eftir að við í Flokki fólksins vorum kjörin á þing buðum við til okkar fulltrúum frá lögreglunni. Þeir sóttu okkur heim á fundarskrifstofu Flokks fólksins sem þá var í Austurstræti. Þá hafði nýlega komið út skýrsla — en lögreglan gefur reglulega út skýrslur um hina og þessa brotastarfsemi í landinu og stöðuna almennt og það sem þeir eru helst að glíma við hverju sinni, hvað er efst á baugi hverju sinni en nú vitum við að varla er hægt að greina þar á milli því að vargöldin er orðin slík og þvílík að við erum búin að missa hér alla stjórn. Það kom fram í þeirri skýrslu sem við fjölluðum um 2018 að lögreglan hefði þá verið búin að kortleggja níu glæpagengi á Íslandi, níu glæpagengi sem lögreglan vissi af og skrifaði skýrslu um og sendi til stjórnvalda. Þetta vissu allir sem höfðu valdið og getuna til að bregðast við en þau gerðu ekkert, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þegar ég spurði í einfeldni minni: Hvers vegna, elskulegu lögreglumenn, ráðist þið ekki að rótum vandans og hjólið bara í þessa glæpahópa? Af hverju rífið þið þetta ekki bara upp með rótum og losið okkur við þetta? Það er vegna þess að við getum það ekki. Við viljum það en við getum það ekki. Við höfum ekki afl til þess, við höfum ekki getu til þess, okkur skortir mannskap og við erum á svo mörgum vígstöðvum í einu að það þyrfti hreinlega að stofna sérstaka deild innan lögreglunnar sem eingöngu beindi öllum sínum krafti í þennan undirheimalýð sem ríður hér röftum dag frá degi og það fer ekki fram hjá neinum. Það er varla sá dagur, ef það er þá yfirhöfuð nokkur einasti dagur, þar sem við fáum ekki að heyra af einhverjum hryllingi og einhverjum glæpum sem eru framdir í fagra landinu okkar í umboði þessa glæpalýðs. Við vitum meira að segja að erlendar mafíur hafa skotið hér rótum í undirheimunum. Við vitum af því að erlendir glæpahópar eru sóttir til annarra Norðurlanda, eingöngu til að fremja glæpi á Íslandi og labba svo út á Keflavíkurflugvöll og fljúga héðan burtu. Við vitum um gífurlegt ofbeldi. Við vitum um gífurlegt mansal, níðingsskap. Og hér sitjum við í raun aðgerðalaus og gerum ekki neitt og gefum ekki einu sinni lögreglunni afl til að takast á við verkefnin sem hún vill leysa.

Og mér er nákvæmlega sama hvað hver segir um lögregluríki hitt og lögregluríki þetta. Það verður að mæta vandanum með löggæslu sem virkar. Það þýðir ekki að ætla alltaf í einhverri góðmennsku að þykjast vera eitthvað annað en við raunverulega erum. Við höfum fengið yfir okkur slíka fjölmenningu í slíku magni á svo skömmum tíma að ég efast um að það sé þekkt á byggðu bóli að jafn fámennt samfélag hafi tekist á við annað eins verkefni á eins skömmum tíma. Afleiðingarnar eru þegar komnar í ljós, þær eru augljósar en það er eins og annað í fanginu á þessari óhæfu ríkisstjórn sem er í rauninni búin að vera meira og minna verkstola og hefur ekki getað tekið neinar erfiðar ákvarðanir sem raunverulega skipta máli fyrir land og þjóð í nánast þessi sjö ár sem hún hefur starfað. Við getum hreinlega ekki beðið eftir því að fá að taka til hendinni og reyna að laga það sem hægt er að laga. Við getum ekki beðið eftir því að losna við þessa ríkisstjórn.

Þrátt fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra hafi boðað nákvæmlega það sama, að hún ætlaði nú í haust að koma inn í þingið með mál af sama toga og þetta frumvarp okkar í Flokki fólksins er að boða hér og nú, þá hefur hæstv. ráðherra Vinstri grænna og formaður, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, eftir einhvern flokksráðsfund ekki fyrir löngu síðan, gefið það út að hér verði ekki krunkað frekar í útlendingalöggjöfina, ekki í boði VG, enda hef ég aldrei séð annað eins ofbeldissamband og aðra eins — hvað á ég að segja? Við höfum talað um fjárkúganir og alls konar kúganir en við sjáum að VG er að kúga þessa ríkisstjórn til hlýðni. Það sáum við augljóslega með lögbrotinu sem þau frömdu fyrir sirka tíu dögum síðan þegar þau réðust inn í lögregluaðgerð, inn í miðja lögregluaðgerð, þar sem lögreglan var að framfylgja sínum verkum, vinnunni sem þeir áttu að vinna þar sem tvö stjórnsýslustig höfðu fjallað um málið og það lá algjörlega ljóst fyrir, þar sem málið hafði verið í kerfinu í meira en ár og ef þessi ríkisstjórn hefði haft þörf fyrir að ræða málið hefði henni verið í lófa lagið að gera það. En nei, þau hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, nýi verðandi formaðurinn væntanlega, gripu til þessa óyndisúrræðis og þarna fór kapall af stað sem er algjör vanvirðing við alla löggjöf í landinu okkar, við réttarríkið og við fullveldi Íslands sem siðmenntaðs samfélags.

Það er með hreinum ólíkindum hvernig lögbrotunum hefur rignt yfir okkur frá þessum hæstráðandi einstaklingum í ríkisstjórninni, hvernig þau hafa vaðið hér um sem eldur um akur og gert nákvæmlega það sem þeim sýnist og halda að þau komist alltaf upp með það án þess að axla ábyrgð. En þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktssyni og mörgum fleirum sé mikið umhugað um að losna við það sem við köllum landsdóm — þar sem við getum dregið ráðherrana til ábyrgðar, við getum farið með embættisfærslur þeirra fyrir dóm og fengið úr því skorið hvort þau séu að ganga á svig við lög, hvort þau séu að brjóta lög. Í raun og veru eru allnokkur dæmi á þessu kjörtímabili sem öll hefðu átt að fara beinustu leið fyrir landsdóm. Ég mun ekki samþykkja að landsdómur verði felldur niður. Ég mun aldrei samþykkja þá breytingu á stjórnarskránni. Það kemur ekki til greina að draga tennurnar frekar úr því þegar við sjáum að það er orðin viðtekin venja að ganga á svig við lög en á sama tíma er ætlast til þess að okkur sé hlýtt, að löggjafanum sé hlýtt.

Við setjum lög, við setjum reglur, við skipum þegnunum að sitja og standa eftir því hvernig við greiðum atkvæði inni í þessum þingsal, að viðlögðum einhverjum refsingum ef þú getur ekki staðið þína plikt og þú fylgir ekki þeirri löggjöf sem við setjum. Þetta eru hrikalega vond skilaboð sem við erum að senda út í samfélagið sem við ætlumst til að viðurkenni okkur, ekki bara sem réttarríki heldur ætlumst við til þess að fólk fari eftir þeim lögum og þeim reglum sem við setjum hér á hinu háa Alþingi. Það er orðið löngu tímabært. Ef breytingartillagan hefði t.d. náð fram að ganga í júní síðastliðinn værum við ekki með einstakling sem heitir Mohamad Kourani en var einhverra hluta vegna búinn að fá að taka upp nafnið Th. Jóhannesson — stórglæpamaður, hann var með 100 kærur á bakinu og nú hefur hann verið dæmdur í átta ára fangelsi af því að hann er með alþjóðlega vernd á Íslandi. Hefði þetta verið samþykkt í júní síðastliðnum þá væri þessi maður ekki á Íslandi í dag. Það hefði ekki þurft að ráða aukamannskap á Litla-Hraun til að verja aðra fanga og fangaverði gegn honum og öðrum hans líkum.

Það er löngu orðið tímabært að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Og eitt er víst að ég þori, Flokkur fólksins þorir og við munum berjast með kjafti og klóm fyrir því að ná til baka því örugga, dásamlega samfélagi sem við, sem höfum fengið að njóta þeirra forréttinda að alast upp í því öryggi, þekkjum svo vel. Við þekkjum það vel hversu dásamlegt það er að fá að alast upp í slíku öryggi, að maður geti í raun gengið um göturnar óhikað, hvenær sólarhringsins sem er, án þess að eiga það á hættu að lenda í einhverjum hrakningum, vera nauðgað eða vera misþyrmt eða jafnvel drepinn. En þannig er Ísland í dag. Það er veruleikafirring að halda að við séum það sérstkök hér, að hér sé allt svo frábært og hér muni enginn glæpamaður vilja vera, að við losnum við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur, sem nú eru að reyna að berjast eins og þau mögulega geta gegn því ofbeldi og þeim hörmungum sem þau eru að ganga í gegnum.

Það eru algerlega hreinar línur, og mér er sama hvað það verður kallað, að ég myndi vilja tvöfalda lögregluliðið hér. Ég myndi vilja manna lögregluna þannig að hún gæti ráðist að rótum vandans, algerlega án þess að þurfa að vera í ótta um eigið líf eins og lögreglumennirnir okkar eru í dag. Við erum komin með svo öflugan undirheimalýð að það er með hreinum ólíkindum og það þorir enginn að tala um það. Það á bara að þagga það niður eins og allt annað. Við viljum fá að vita hverjir sækja okkur heim. Í Flokki fólksins viljum við fá að vita nákvæmlega hverjir sækja okkur heim. Við viljum fá að skoða alla þá sem koma hingað og einhver vafi leikur á að séu ekki bara að koma sem venjulegir ferðamenn að kíkja í næsta snjóskafl í vetur. Okkur er þetta í lófa lagið fyrst við erum nú að státa af þessu Schengen-samkomulagi, að það sé svo sérstaklega gott fyrir okkur til að tryggja að við höfum sameiginlegan aðgang með lögreglu innan Schengen-svæðisins til að fá upplýsingar um glæpamenn sem vitað er að eru á ferð og flugi — við viljum þá ekki til Íslands og ef þeir eru hér þá viljum við þá burt með öllum ráðum.

Það er ekki nóg með það heldur eru börnin okkar niður í grunnskólaaldur farin að þjónka og þjónusta suma af þessum glæpamönnum, gegn greiðslu að sjálfsögðu. Ég get því miður ekki nefnt nöfn en hitt get ég sagt að útsýnið sem ég hef héðan frá Alþingi Íslendinga og eftir að hafa verið alþingismaður í sjö ár — og það þekkja það allir sem eru að sinna þessu mikilvæga starfi að við fáum að heyra ýmislegt. Við tölum við fólk, við tökum utan um fólk sem á bágt, við reynum að hjálpa ef við mögulega getum, við fáum sorgarsögurnar beint í fangið. Og það er ömurlegt að vera vanmáttugur og geta ekki hjálpað. Það er ömurlegt að horfa upp á það hvernig fólkið missir fótanna, börnunum okkar er misþyrmt og hvernig þau leiðast út á refilstigu í boði þessara glæpagengja sem fá að vaða hér sem eldur um akur. Þannig að hvað sem þið viljið kalla það þá viljum við að öllum glæpamönnum, þó að þeir hafi hlotið alþjóðlega vernd, sem gerast ítrekað brotlegir við lög, hvað þá það alvarleg brot að það varðar fangelsi, sé vinsamlega komið úr landi. Þeir eiga ekkert erindi hér. Og sumir hverjir hafa eingöngu komið hér til að fremja glæpi — af því að við erum svo barnaleg, það er svo auðvelt að fíflast með okkur, við höfum ekki bolmagn til að takast á við það.

Betur má ef duga skal. Ég ætla að ítreka það enn og aftur að ég bíð spennt eftir að sjá hvort við fáum stuðning við það að koma þessu liði úr landi eða hvort við söfnum fleirum eins og Mohamad Kourani í átta ára fangelsi inn á Litla-Hraun þar sem hátt í þriðjungur allra fanga er útlendingar. Við byggjum ný fangelsi, við höfum ekki nógu góða aðstöðu af því að við erum að taka á móti fjölda einstaklinga sem eiga ekkert erindi hingað og við höfum akkúrat ekkert með að gera. Ég held að Ísland ali sjálft eitt og sér nóg af glæpamönnum til að sinna. Við getum ekki brottvísað íslenskum ríkisborgurum, við getum ekkert gert gagnvart þeim, en við getum gripið inn í og tekið það alvarlega hvernig komið er fyrir samfélaginu okkar í dag. Og ég ætla að ítreka: Það er eitt að vilja fjölmenningarsamfélag og það er annað að lenda í slíkri holskeflu eins og við nú. Við höfum misst öll tök og alla stjórn.

Eins og Flokkur fólksins segir og ég ítreka hér og nú: Ísland er uppselt gagnvart frekara flæði hælisleitenda á meðan við erum enn að vinna niður það sem við erum með í fanginu í dag. Ísland er uppselt á meðan við eigum ekki fæði, klæði og húsnæði fyrir þá sem sitja hér fyrir. (TAT: Heyr, heyr.)