155. löggjafarþing — 11. fundur,  7. okt. 2024.

staða öryrkja og frestun gildistöku kjarabótar.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég ætla koma með sanna sögu, raunverulega og sanna sögu úr landi tækifæra Sjálfstæðisflokksins og „Þetta er allt að koma“ hjá Framsókn. Það var sunnudaginn 29. september sem ég átti samtal við einstæða tveggja barna móður, öryrkja norður í landi, og ég get eiginlega ekki orða bundist því að ég varð fyrir slíku áfalli. Þetta minnir mig svo mikið á þann ömurlega tíma sem maður gekk í gegnum þegar maður var bláfátækur og gat ekki veitt börnunum sínum nokkurn skapaðan hlut. Þegar ég er að tala við þessa ungu konu kemur eldri sonur hennar til hennar og segir: Mamma, geturðu gefið mér í sund? Hvað kostar það? 1.200, ég ætla í Þelamörk með strákunum. Nei, ég á ekki í sund, því miður, ég á ekki þessa peninga. Ég sagði: Í guðanna bænum, geturðu reynt að finna 1.200 kr. einhvers staðar? Áttu ekki hundraðkalla eða eitthvað einhvers staðar? Geturðu ekki farið og leitað í einhverjum vösum, skápum, skúffum, hirslum? Nei, ég á ekki þessa peninga. Þá kemur litli bróðir og segir: Ég á 1.006 kr. í sparibauknum mínum en þú skuldar mér sko 4.000, þannig að þú verður einhvern tímann að borga mér það. Og upp úr þessu hófst það að hún fór að leita dyrum og dyngjum og fann 300 kr. í klinki til að geta gefið drengnum sínum í sund.

Þetta er öryrki, dæmi um öryrkja sem þarf að bíða enn eftir réttlætinu. Þessi hópur fólks verður skertur núna um það sem var þeirra og átti að verða þeirra 1. janúar næstkomandi þar sem átti að bæta kjör öryrkja um 10,1 milljarð kr. Öryrkjabandalagið er búið að benda á það að í átta mánuði er verið að taka 49.800 kr. af ríflega 23.000 öryrkjum með því að fresta gildistöku þessarar kjarabótar til 1. september næstkomandi, eins og glögglega kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Finnst þér þetta réttlætanlegt, hæstv. fjármálaráðherra, hvernig er verið að ráðast að fátækasta fólkinu í landinu þar sem fórnarlömbin eru saklaus börn?