155. löggjafarþing — 11. fundur,  7. okt. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar vegna hörmunganna í Palestínu.

[15:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Já, við segjum hlutina eins og þeir eru. Ég held að við Píratar séum ansi duglegir í því þegar allt kemur til alls og við fögnum öllum liðsauka í þeirri baráttu að segja hlutina bara eins og þeir eru. Það eru alveg tvímælalaust nokkrir aðrir flokkar hérna sem gera það líka, svo við skiljum það eftir hérna inni í þessum þingsal.

Ísland er vissulega lítið land og rödd okkar lítil í alþjóðasamfélaginu en það er samt litið til okkar með setu t.d. í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna líka og það er hlustað á okkur, að hluta til út af því að við erum einmitt friðelskandi þjóð sem er ekki með her. Það að segja skoðun okkar skiptir máli. Það skiptir máli ef Alþingi Íslendinga segir skoðun sína. En ég spurði ráðherra einmitt út af því hvernig meirihlutaræðið virkar hérna og hvernig dagskrárstjórnin er: Ef þetta mál kemst ekki í gegnum ríkisstjórnina, fær það samt að komast í atkvæðagreiðslu hérna á þinginu?