155. löggjafarþing — 11. fundur,  7. okt. 2024.

staða samgöngumála á Vestfjörðum.

[15:43]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég vil koma hérna inn á stöðu samgöngumála á Vestfjörðum og spyrja hæstv. innviðaráðherra hverju sé hægt að treysta í samgöngumálum í ljósi þess að uppfærð samgönguáætlun er væntanleg hérna inn í þingið í október. Hverju er hægt að treysta? Að staðið verði við það sem þegar hefur verið ákveðið í þinginu og samþykkt, er hægt að treysta því? Ég er að vísa til framkvæmda eins og til að mynda í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði sem hafa verið samþykktar hér og eru í gildandi áætlun en hefur ítrekað verið frestað og verklok tefjast nú um þrjú ár. Þeim átti að vera lokið á þessu ári en þær tefjast um þrjú ár. Hverju er hægt að treysta þegar aðrar framkvæmdir á suðausturhorninu sem ekki njóta sama forgangs er að því er virðist kippt fram fyrir? Þetta er gríðarlega stórt mál, frú forseti, og það skiptir máli að það ríki traust um það sem hér er samþykkt.

Það er líka tilefni til að spyrja hæstv. innviðaráðherra í ljósi þess og eftir forskrift höfuðborgarsáttmálans hvort hægt sé að treysta því að ríkisstjórnin, hæstv. innviðaráðherra, sé tilbúin í samtal við sveitarstjórnir eða landshlutasamtök þeirra, til að mynda á Vestfjörðum, Vesturlandi eða Norðurlandi vestra, og gera sambærilegan sáttmála um uppbyggingu innviða, til að mynda á Vestfjörðum, um að flýta framkvæmdum eftir forskrift höfuðborgarsáttmálans þar sem ríkiseignir, eins og í tilviki Keldnalandsins, eru þá lagðar fram af hálfu ríkisins og þær notaðir til að flýta framkvæmdum?