15.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

15. mál, námulög

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Það tekur því ekki að fara mörgum orðum um frumv. þetta. Eg skal að eins drepa lítið eitt á aðalkjarna málsins, aðaldrættina. Um einstök atriði er eigi vert að ræða fyr en við 2. umr. Frumv. gerir ráð fyrir eða réttara sagt ákveður, að þeir, sem leita vilji að málmum í landssjóðs- og kirkjujörðum, skuli fá málmleitarbréf hjá lögreglustjóra. Það gildir í 2 ár. Hafi hann svo leitað að málmum og fundið, á hann rétt til innan 2 ára frá tilkynningu um fundinn, að fá málmgraftarbréf, sem lögreglustjóri gefur út. — Svo langt eru núgildandi námulög samferða frumv. því, er hér liggur fyrir, en ýmsum ákvæðum hefir frumv. breytt frá því, sem stendur í námulögunum, þannig eru ákvæðin um sameign landssjóðs og málmleitenda feld í burtu, að landssjóður eigi ? af réttinum til að reka námurnar. Það verður óneitanlega að álítast nokkuð óheppilegt — eins og í nefndarálitið tekur skýrt fram, að landssjóður eða kirkja taki ? þátt í rekstri náma, sem vafasamt er, hvort nokkurn tíma svara kostnaði. Hitt er hyggilegra, að námuhafi borgi til landssjóðs eða kirkju árlegt gjald, sem nokkurskonar eftirgjald. Þá er ekki hætt við, að menn muni sölsa undir sig stórar spildur lands að óþörfu, og láti þær liggja árum og tugum ára saman, án þess að reka námurnar.

Svo er um frestina; þá vill nefndin fella burtu og getur það, — þegar betur er að gáð — verið hyggilegt ákvæði. Fyrirmæli núgildandi laga og frumv. um fresti leggja mikil, tilfinnanleg höft á málmnema, en hins vegar óhugsandi, að lögreglustjórar geti dæmt um, hvenær rétt er að veita frest eða ekki. Þess vegna verða önnur ákvæði að gilda um þetta efni, en annarsstaðar, þar sem námuverkfræðingar eru til, og þar sem þeir eru skipaðir til þess að dæma um slík atriði.

Þetta er aðalþráðurinn í þessu máli, og finn eg því ekki ástæðu til að fara frekari orðum um það að sinni. Vona að málinu verði vísað til 2. umr. að umræðum loknum.