10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Mál þetta er góðkunnugt ýmsum háttv. þingdeildarmönnum síðan á síðasta þingi; þá var það allmikið rætt, og nú er það borið fram eftir áskorun frá sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu, og óskum íbúanna í því héraði, sem til er ætlast, að gert verði að sérstöku læknishéraði.

Frv. fer fram á, að Ísafjarðarlæknishéraði sé skift í tvö læknishéruð, Ísafjarðarhérað og Nauteyrarhérað, enda voru það tvö læknishéruð, unz síðasta alþingi ákvað, að Nauteyrarhérað skyldi lagt niður, og þó voru og eru þar um 1200 íbúar. Nú verða þeir að vitja læknis til Ísafjarðar, og geta þeir, sem kunnugir eru, bezt dæmt um, hve afarörðugt það oft og einatt muni vera. Það mun láta nærri, að vegalengdin til læknis sé, að því er þá snertir, sem næst eru, 3 mílur, en fyrir þá sem fjær búa rúmar 7 mílur á sjó; og á vetrum má heita, að ferðir þessar séu tíðum ófærar með öllu, og má í því skyni geta þess t. d., að pósturinn, sem fer milli Hjarðarholts og Ísafjarðar hefir vetrardaginn þráfaldlega ekki getað farið frá Arngerðareyri til Ísafjarðar á áætlunardegi, og það þótt góðan og stóran »mótorbát« hafi haft til ferðanna og er þessa að eins getið, til að sýna hina miklu erfiðleika, sem héraðsbúar eiga við að búa.

Á síðasta þingi var því haldið fram, að síminn mundi bæta úr þessum örðugleikum; en héraðsmönnum hefir önnur raun á orðið, og nærri má kalla, að þeir séu alveg læknislausir, enda má það heita nær ókleifur kostnaður, að verða að vitja læknis til Ísafjarðar, þar sem vélabátur frá Ísafirði kostar minst 25—30 kr. eða báðar leiðir 50— 60 kr. eða jafnvel 70—75; og sé borgun til læknis með talin, kostar læknisvitjanin auðvitað mun meira. Það er því auðséð, að það verða að eins þeir, sem efnaðri eru, sem geta kostað svo miklu til, en öll alþýða manna hlýtur að fara á mis við alla læknishjálp.

Auk þess er þegar er getið, má bæta því við, að læknar á Ísafirði — þótt þeirra sé vitjað, og miklu til þess kostað — þykjast oft ekki eiga heimangengt, og vilja því helzt að sjúklingarnir séu fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði; en við það eykst kostnaðurinn hálfu meir, eins og öllum er auðskilið.

Í bænarskrá héraðsbúa til alþ. er það og tekið fram, að engin bólusetning hafi farið fram í Nauteyrarhéraði síðan 1906, er læknir fór þaðan og hljóta allir að sjá, hversu afar óheppilegt slíkt ástand er. Eg vona því, að hin háttv. deild sjái, að hér er um mesta nauðsynjamál að ræða, og lofi málinu hindrunarlaust fram að ganga.

Eg vil að endingu leyfa mér að leggja það til, að 3 manna nefnd verði kosin í málið.