20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Eg skal taka því með ró, sem háttv. þm. Ísf. lagði nú til málsins; eg bjóst alt af við andbyr úr þeirri átt.

Háttv. þingm. kvað háskólann mundu verða dauðan bókstaf um óákveðinn tíma. Eg skal nú að vísu játa það, að að forminu til er hér að eins um bréffesting eða lögfesting háskólans að ræða, en vér vinir háskólans vonum nú samt sem áður, að skólinn komist á innan skamms, og það enda á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.

Háttv. þingm. lézt ekki trúa því, að notast yrði við efri bygð Latínuskólans, en eg geri mér nú sem fyr góða von um að nota megi hana, alténd í bráð, og þykist hafa leitt rök að því, og þá fer því svo fjærri að óttast þurfi óbærilegan kostnað af skólastofnuninni, að húsaleigukostnaður mundi enda verða minni en hann nú er.

Þá gat háttv. þingm. þess, að frumv. taki fram fyrir hendur næsta þings. Já, eg vona að samþykt þess reki svo á eftir, að veitt verði fé til háskólans á næsta þingi. En því miður er engan veginn víst að svo verði; þingið er formlega óbundið. Þó vona eg að svo verði, vona að landspólitíkin sitji þá í fyrirrúmi fyrir hreppapólitíkinni, vona að háskólanum gangi þá ekki lakara en horfur eru á að t. d. gagnfræðaskólanum á Ísafirði gangi nú.