17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

93. mál, löggilding Viðey

Hannes Hafstein:

Eg er samdóma háttv. forseta að þetta er alveg nýtt frumv. En sé það nýtt frumv., þá getur það ekki jafnframt verið gamalt frumv., sem búið er að fella á þessu þingi, og því getur, eftir þessari yfirlýsing forseta sjálfs, engin heimild verið til að vísa þessu frv. frá eftir 27. gr. þingskapanna. Spurningin um löggildingu Viðeyjar er nú að eins eitt atriði í nýju frumvarpi.

Dæmi háttv. forseta sannfærði mig als ekki. Eg ætla að leyfa mér að koma með annað dæmi. Setjum svo, að tvö frumvörp komi fram sitt í hvorri deildinni, og í báðum væri ákvæði um sama efni. — Nú er annað frumv. felt, einmitt vegna hins frumv., ætti þá hitt frumv. að vera orðið ólögmætt og réttdræpt vegna þess að hið sameiginlega atriði væri áður felt? Nei, þetta gæti með engu móti staðist eftir þingsköpunum né heilbrigðri skynsemi. Eg vil og minna á það, hve algengt það er að taka inn í fjárlagafrumv. atriði úr feldum lagafrumv., og hefir enginn haft neitt á móti því. Hversvegna skyldi þá eigi mega fylgja sömu reglu um önnur lagafrumv.?