03.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

99. mál, sala þjóðjarða

Jón Jónsson, (1. þm. N.-Múl.):

Eg verð að álíta það misskilning hjá h. frmsm. (J. Ó.) og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), að frumv. þetta stuðli einmitt að sjálfsábúð í landinu. Þessi leppmenska, sem þeir eru að tala um, er yfirskinsástæða. Eða ekki þekki eg það, að jarðir séu setnar á þann hátt.

Hitt veit eg, að sumir samnefndarmenn mínir eru eindregnir á móti þjóðjarðasölu. Fyrir þeim vakir án efa þetta aðallega, að draga úr þjóðjarðasölulögunum, og ná smátt og smátt jörðunum aftur í eign landsins. Og með mínum bezta vilja sé eg ekki, að nokkur önnur ástæða geti verið til að bera fram svona frumv , en einmitt þessi, að vega á móti þeim lögum og gera þau að pappírsgagni.

Háttv. frmsm. (J. Ó.) var að nefna dæmi þess, að jarðir, sem keyptar hefðu verið af landssjóði fyrir svo og svo mikið verð, hefðu verið seldar aftur að fám árum liðnum fyrir margfalt meira verð. En eg verð að leyfa mér að efast um, að þessa séu mörg dæmi. Þá eiga ákvæði 3. gr. að herða á mönnum að halda í jarðirnar. En það getur svo margt komið fyrir, að mönnum sé það ómögulegt. Auk þess er óvíst, að maður, sem á annað borð vildi selja jörð sína, gerði það síður, þó að landssjóður ætti kaupréttinn.

Eg held því fram, að alment muni jarðir fremur hækka en lækka í verði með sjálfsábúð. En hvað sem því líður, er aðalatriðið, að landsmenn hafi gott af þjóðjarðasölunni, að jörðunum sé sómi sýndur. Mundi fremur koma til þess, að jarðir einstakra manna legðust í eyði heldur en opinberar eignir? Eg held ekki. Nei, ef háttv. þm. álíta rétt að selja landssjóðsjarðir, þá fella þeir vonandi frumv. þetta, því að það miðar að því gagnstæða.