05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

55. mál, dánarskýrslur

Gunnar Ólafsson:

Eg hefi ekki sannfærst af umræðunum um það, að æskilegt sé að frumv. verði samþykt. Við 2. umræðu þess var háttv. 3. kgk. þm. einna háværastur; hann kallaði það skrælingjahátt, að samþykkja ekki frv. þetta. Mér þótti það lítil sönnunargögn, og er enn á þeirri skoðun, að helzt ætti það að falla.

En eg mun greiða atkvæði með breyt.till. háttv. þm. V.-Ísf.; því verði þær samþyktar er frumv. í raun og veru fallið. Aðal ókostirnir eru þá teknir burtu. Það sem eftir er, nfl. að prestar gefi dánarvottorðin, er meinlaust. Læknum munu víðast kunn dauðamein manna í héruðum þeirra, og mundu þeir þá geta leiðrétt það, sem rangt væri í skýrslum presta. Að vísu mundu, eins og eg hefi tekið fram áður, svona lagaðar skýrslur prestanna aldrei verða áreiðanlegar, en gætu þó ef til vill orðið nokkurs virði, er héraðslæknar hafa farið yfir þær. Gæti verið að landlæknir og þeir sem á annað borð trúa nokkuð á skýrslur, gætu fundið einhvern sannleika út úr þeim.

Eg skal að endingu að eins taka það fram enn einu sinni, að eg ræð deildinni frá að samþykkja frumv. óbreytt.