13.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

64. mál, bókasafn vesturlands

Lárus H. Bjarnason:

Eg tek þetta sem leiðbeiningum til hins háttv. þm. sem síðast talaði. (Forseti: Átti ekki síður við ræðu háttv. 5. kgk. þm.).

Háttv. þm. hélt því fram að safnið væri opinber eign. Þetta má rétt vera, ef hann meinar aðeins það með orðinu, að fleiri eigi safnið en nokkrir einstaklingar. En það er ekki rétt, ef hann notar orðið »opinber eign« í sömu merkingu og landseign, og það gerir hann.

Það er sitthvað, að nokkur héruð eigi bókasafnið í Stykkishólmi, eða að landið eigi það. Ætti landið það, væri löggjafarvaldið bært að ráðstafa því. En af því að Vesturamtið forna átti það, var amtsráðið eitt bært um það, en landið og löggjafarvald þess á þar ekkert atkvæði um. Enda hefir þingið litið svo á, að það ætti ekki rétt á að ráðstafa eignum amtanna. Þess vegna var t. d. leitað samninga um afhending Hólaskóla og Hvanneyrarskóla, sem áður voru eignir amtanna; þeir voru ekki teknir með lögum.

Hitt tek eg mér ekki nærri, þó að háttv. þm. ætli sér að skilja stjórnarskrána betur en eg. Eftir 50. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Það þýðir, að hvorki megi taka eign af réttum eiganda né heldur rifta löglegum ráðstöfunum eiganda. Hér væri eignarrétturinn að vísu ekki tekinn af sýslum Vesturamtsins, en lögmætri ráðstöfun amtsráðsins um hvar safnið skuli vera, væri riftað með frumv. og því bryti það 50. gr. stjórnarskrárinnar.

Það væri ekki að eins brot á stjórnarskránni, ef löggjafarvaldið tæki Vigur af háttv. þm., heldur væri það líka brot á eignarrétti þm., ef riftað væri t. d. með lögum byggingu hans á jörðinni, hún tekin frá A og bygð B.

Eg sagði ekki að amtsráðið hefði gert amtsbókasafnið í Stykkishólmi að eign Snæfellsnessýslu. Um það atriði leyfi eg mér að vísa til Amtsráðsfundarsamþyktarinnar 1906 sem eg las upp áðan. Safnið er Amtsbókasafn eftir sem áður. Hitt er auðvitað, að Snæfellingar eiga öðrum fremur hægt með að nota safnið, af »faktiskum« ástæðum, en þeir bera líka allan kostnaðinn af safninu.

Eg sagði ekki að háttv. þm. hefði komið fram með frumv. á síðasta þingi um flutning safnsins. Orð háttv. þm. hér um eru orðaleikur. Eg sagði að hann hefði farið þess á leit að það yrði flutt. Það gerði hann, og það hefir hann nú játað, enda var hægt að sanna það með þingtíðindunum 1907.

Eg sagði ekki að alþingi yrði sótt til sekta, en hitt sagði eg og stend við það og háttv. þm. ætti að vita það, að dómstólarnir eru bærir að dæma um það, hvort löggjafarvaldið hefir haldið sér innan þeirra takmarka sem stjórnarskráin hefir markað því. Lagafrumv. um flutning safnsins úr Stykkishólmi til Ísafjarðar færi í bága við 50. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnarnefnd safnsins í Stykkishólmi þyrfti ekki að hlýða slíkum lögum, og hún mundi ekki verða dæmd til þess. Hæstiréttur mundi að minsta kosti ekki gjöra það.

Mér varð á það mismæli að nefna Þorskafjörð í stað Ísafjarðar, og telur háttv. þm. að eg hafi gert það viljandi og í óvirðingarskyni við Ísfirðinga. Út af því skal eg að eins minna háttv. þm. á að hann úthúðaði Stykkishólmi á alþingi 1907, kallaði hann kauptúnsholu og fór öðrum smánarorðum um héraðið. Annars finst mér það ekkert »crimen læsæ« þó að eg hefði kallað Ísafjörð svo því að sú skepna sem eg nefndi, mun þó enn vera til »í Djúpinu«.

Þegar eg fór úr Stykkishólmi, var ekkert hávísindalegt þýzkt lögfræðisrit til á safninu, því miður; en aftur á móti átti safnið »Tidskrift for Retsvidenskab« og keypti eg það að dæmi Páls heit. Briem, er hafði keypt það handa Amtsbókasafninu á Akureyri.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, er háttv. þm. Ísf. hefir flutt með honum laginni skerpu og kappi. Þær ástæður, er hann hefir borið fram hér í deildinni, hefðu verið áheyrilegar á Amtsráðsfundunum 1906 og 1907, en nú ná þær ekki nokkru tali.