15.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Gunnar Ólafsson:

Háttv. 4. kgk. þm. sagði, að bátnum væri ætlað að fara 5 ferðir norður og 6 suður frá Seyðisfirði. Er það ekki misskilningur? Eg stend í þeirri meiningu, að báturinn eigi að fara 7 ferðir suður á bóginn, enda er það líklegast þar sem hann á að ganga í 4 mánuði. Eg veit ekki hvað hann ætti annars að gera við allan þann tíma, því að það er ekki svo löng sigling frá Þórshöfn til Hornafjarðar. Bátinn sjálfan þekki eg ekki, en þar sem ætlast er til, að hann fái 10,000 kr. úr landsjóði, sem ef hann gengur í 4 mánuði er 83 kr. á dag, þá má nærri geta að þetta er góður bátur, fær í allan sjó og fljótur í förum, sem slíkan styrk fær. Það mundi því ekki þurfa að fækka ferðunum mikið, og ef til vill alls ekki, þótt farnar væru 3 ferðir til Víkur og Vestmannaeyja. Enn vildi eg benda á það, að það er mjög hagkvæmt Austfirðingum, að hafa skipaferðir til Vestmannaeyja, því að þeir hafa mikla þörf á góðu sambandi við Eyjarnar, einkum vegna fólksflutninga milli þessara staða. Eg hefi talað um mál þetta við þingmenn Suður-Múlasýslu, og voru þeir tillögu minni hlyntir, og töldu að betra væri að fækka ferðunum norður en missa af sambandinu við Vestmannaeyjar, að því er þeirra kjördæmi snertir.