13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Lárus H. Bjarnason:

Mér er þetta mál ekkert kappsmál, því eg býst ekki við að það muni nokkurn tíma snerta mig persónulega. En eg skal geta þess í sambandi við það sem háttv. þm. V.-Sk. tók fram, að eftir frumv. geta sáttanefndir ekki að eins kveðið upp úrskurði, er báðir málsaðilar mæta, heldur einnig þó ekki mæti nema annar, og þeim er fenginn réttur til að gjöra skuldajöfnuð milli manna, eða réttur, sem lögfróðum mönnum þykir stundum full erfitt að fást við. Þm. sagði, að hann efaðist ekki um að eg skýrði rétt frá um þessi 108 mál, sem vísað hefði verið frá sáttanefndum 1903, en eg skal bæta því við, að minnugur maður hefir sagt mér, að 30 af þessum málum muni hafa verið meiðyrðamál milli tveggja ritstjóra.

Annars læt eg mig þetta mál litlu skifta; eg vil að eins ekki fá kaupmannastéttinni svo biturt vopn í hendur, sem henni er fengið með þessu frv. í sambandi við varnarþingslögin frá 1907. Það eru auðvitað margir heiðarlegir menn í þeirri stétt, t. d. háttv. þm. V. Sk. sjálfur, sem líklega ekki mundu misbrúka þetta vopn, en það verður á hinn bóginn að gæta þess, að það er misjafn sauður í mörgu fé.