03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

86. mál, Landsbankarannsókn

Lárus H. Bjarnason:

Það er kunnugt, að rýrandi orð og gjörðir einstakra manna í garð annara einstaklinga geta haft ill áhrif; enda setur löggjöfin viðurlög við slíkum orðum og gjörðum. Eg þarf ekki annað en að benda á 305. gr. hegningarlaganna, sem leggur bætur við því að meiða æru annars manns og fara með eða raska stöðu hans og högum. Enn skaðlegra er það, þegar embættismenn gera sig seka í slíkum rýrandi orðum og athöfnum. En langskaðlegast er það, ef æðstu embættismenn þjóðarinnar koma þannig fram gagnvart stofnunum, sem heill og hagur þjóðarinnar er bundinn við. Til dæmis um ábyrgð embættismanna má benda á lög 26. okt. 1893, er heimila manni, er settur hefir verið í gæzluvarðhald að ósekju, skaðabætur fyrir þjáningu þá, smán og fjártjón, er hann hefir beðið af því. Sömuleiðis má vísa til ráðherraábyrgðarlaganna frá 4. marz 1904 4. gr., þar sem segir, að ráðherra sé sekur eftir lögunum, ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því að framkvæmt sé nokkuð, er fyrirsjáanlega getur orðið almenningi eða einstaklingi að tjóni, þótt eigi sé framkvæmd þess bönnuð í lögum.

Nú munu allir kannast við, að banki, ekki sízt þjóðbanki með seðlaútgáfurétti og sparisjóðsdeild, sé almenningsstofnun, sem heill og hagur þjóðarinnar er bundinn við. Slíkur banki er fyrir viðskiftalíf þjóðarinnar sama sem hjartað er fyrir vellíðan lifandi vera. Slík lífsuppspretta fyrir Íslendinga er Landsbankinn. Það er alt af vandfarið með slíka stofnun, en ekki sízt eins og nú stendur á. Hið pólitíska og fjárhagslega ástand er mjög svo óglæsilegt sem stendur, og eg tel víst, að hið fyrra valdi ekki litlu um hið síðara. En alveg að því sleptu stendur Landsbankinn ekki vel að vígi til að verjast árásum nú. Hann skuldaði útlendingum fyrir síðustu mánaðarmót kringum 1 miljón kr. Hann var þá að selja skuldabréf fyrir 2 miljónir kr., og hann ávaxtaði þá yfir 3 miljónir kr. af spariskildingum almennings. Hann skuldaði þannig um þetta leyti um 4 milj. kr., er heimta hefði mátt af honum án uppsagnar eða með stuttum uppsagnarfresti. Og átti auk þess á hættu að missa af 2 milj. kr. fyrir skuldabréfin. Þannig voru 6 milj. króna eða sama sem alt ársveltufé bankans í húfi. Árás á slíka stofnun er alt af mjög svo viðsjárverð; og er svo á stendur, sem nú var sagt, líkust höggi í hjartastað, ekki sízt greiði sá höggið, er hlífa skyldi. Sviplík slíku höggi er ráðstöfun hæstv. ráðherra frá 26. f. m., er hann skipaði 3 manna nefnd til að rannsaka allan hag Landsbankans að fornu og nýju. Mörgum, flestum, líklega öllum mun virðast sem þessi ráðstöfun hefði verið betur ógjörð. það er kunnugt, að bankanum er mjög vel stjórnað. Honum stjórna, auk bankastjóra, sem skipaður er af ráðherra, tveir menn kjörnir af hendi alþingis. Auk þess eru við bankann tveir endurskoðunarmenn, annar skipaður af landstjórninni en hinn kosinn af alþingi, og hafa þeir daglegt eftirlit með bankanum. Fjórum sinnum á ári er gefið út yfirlit yfir hag bankans, og auk þess er í aprílmánuði ár hvert birtur ársreikningur yfir öll viðskifti bankans. Loks hefir landstjórnin eftirlit með seðlaútgáfu bankans, og nú sérstaklega með innköllun hinna gömlu seðla. Maður skyldi halda, að ekki væri þörf á óvanalegum ráðstöfunum til eftirlits með stofnun, sem svo vandlega er lítið eftir. Enda má, með því að skoða reikninga bankans, fyrirhafnarlítið ganga úr skugga um það, að bankanum er vel stjórnað, og að hann hefir stöðugt aukist og magnast, einkum síðustu árin. Því til sönnunar vil eg með leyfi hæstv. forseta lesa upp nokkrar tölur, er sýna hversu umsetning bankans hefir aukist síðan um aldamótin:

1901 var aðalumsetn. hans 13786 þús kr.

1902 — — — — 16933 —

1903 — — — — 21708 —

1904 - — — — 25714 —

1905 — — — — 24946 —

Þetta ár minkaði umsetningin lítið eitt vegna þess, að þá var Íslandsbanki nýtekinn til starfa, en næsta ár nær Landsbankinn sér undir eins aftur; þá eða

1906 var umsetningin 25925 þús. kr.

1907 — — — — — — 23502 — —

1908 — — — — — — 26780 — —

Varasjóður bankans var þ. 1. jan. 1901: 216 þús. kr.

1901 bættust við hann 53 — —

1902 — — — 39 — —

1903 — — — 44 — —

1904 — — — 55 — —

1905 — — — 76 — —

1906 — — — 53 . . _

1907 - — — 49 — —

1908 — — — 52 — —

Menn munu taka eftir því, að sum árin hefir varasjóðurinn aukist minna en önnur, en það merkir þó ekki að bankinn hafi grætt minna þau árin sem minna bættist við varasjóðinn, heldur það, að útlendu verðbréfin, sem bankinn á, stóðu þau árin með lægra verði, því verðfall verðbréfanna kemur niður á varasjóðnum. T. d. nam verðfall bréfanna árið 1907 12 þús. kr. og 1908 27 þús. kr.

Öll þessi ár má segja, að bankinn hafi sama sem engu tapað. Árið 1901 tapaði hann einum 573 kr., og var það að kenna skjalafalsi. Árið 1907 tapaði hann 196 kr. og 1908 1214 kr., og var hvorttveggja að mestu leyti sömu ástæðu að kenna. Öll hin árin hefir bankinn ekki tapað einum eyri. Þetta má lesa fyrirhafnarlaust í reikningum bankans. Þrátt fyrir þetta er nú skipuð opinber rannsóknarnefnd á bankann. Og sú nefnd á ekki einungis að rannsaka allan hag bankans nú, heldur einnig að fornu og nýju. Það sést greinilega á bréfinu, þar sem stendur, að nefndin geti krafist þess, að sér séu afhentir allir reikningar bankans, eins þótt þeir séu frá umliðnum árum. Auk þess sem þessi ráðstöfun er megn vantraustsyfirlýsing til allra þeirra manna, sem við bankann eru riðnir, þá er hún líka stórhættuleg fyrir bankann, fyrir alla þá sem við bankann skifta og þar með fyrir almenning og enda landið. Landsjóður ber ábyrgð ekki einungis á seðlum bankans, heldur líka á þeim skuldabréfum bankans, sem nú er verið að reyna að selja. Og eins og eg sagði áðan eiga landsbúar í bankanum megnið af því fé, sem þeir hafa sparað saman.

Í augum þeirra manna, sem ekki þekkja örlyndi hæstv. ráðherra eins vel og traustleika bankans, hlýtur þessi ráðstöfun að vera nokkurs konar Samsonartak um þær tvær máttarstoðir, sem Landsbankinn aðallega hvílir á, lánstraust hans erlendis og traust hans innanlands sem áreiðanlegur sparisjóður. Þessi ráðstöfun hlýtur alstaðar þar sem eitthvað er lagt upp úr orðum og athöfnum hæstv. ráðherra, að vekja grun um að ekki sé alt með feldu í bankanum. Ókunnugir, og sérstaklega útlendingar, mættu halda, að bankastjórnin hefði hagað sér eitthvað líkt og Alberti.

En hvað sem því líður, þá er hitt víst, að hér í Reykjavík hefir þessi ráðherraráðstöfun haft mikil óþægindi í för með sér fyrir bankann, og það enda þótt bankamennirnir sjálfir og aðrir, sem vilja bankanum vel, hafi haldið aftur af mönnum eftir megni. Mýmargir menn hafa núna þessa dagana, sjáanlega ekki annara orsaka vegna, hlaupið til og tekið innieign sína úr bankanum. 28. f. m. voru tæmdar 16 sparisjóðsbækur með 19 þúsund króna innieign. 28. s. mán. voru tæmdar 29 bækur með 25. þús. kr. innieign. 30. s. m. 17 bækur með 23 þús. kr., og 1. þ. m. 12 bækur með 14 þús.kr. Þennan síðastliðna dag voru þó lagðar inn 4000 kr. — Þessa fjóra daga eru þá með öðrum orðum teknar út úr bankanum yfir 80 þúsund krónur, og þess utan sagt upp lánum fyrir um 65 þús. kr. Ekki minna uppþoti hefir nú þessi ráðstöfun hæstv. ráðherra valdið. Og þó hefir verið haldið aftur af fólki af öllum vinum bankans. Minnihlutablöðin hafa reynt að kveða niður allan ótta. Og seinast en ekki sízt hefir hæstv. ráðherra sjálfur reynt að draga úr þessari óhapparáðstöfun sinni, eftir að hann sá hvílíka skyssu hann hafði gjört. Það má hann eiga. Þannig lýsti hann því ótilkvaddur yfir í neðri deild 28. f. m., að hann hefði engan illan grun á stjórn bankans; hann sendi út fregnmiða um þetta og lét festa upp á götum bæjarins; hann símaði það til trúnaðarmanns síns í Kaupmannahöfn og bað hann að skýra frá tilgangi þessarar ráðstöfunar, ef bóla kynni á ótta þar, og hann bað Íslandsbanka að hlaupa undir bagga með Landsbankanum ef á þyrfti að halda. Þetta sýnir alt saman, að hæstv. ráðherra hefir orðið hræddur við gjörðir sínar, þegar hann fór að athuga afleiðingarnar. Og það var honum sízt láandi.

Eg heyrði hæstv. ráðherra bera það fyrir sig í Nd. 28. f. m., að þessi rannsóknarráðstöfun sín væri samkvæm fyrirmælum 26. greinar bankalaganna. En það er ekki rétt. Greinin fyrirskipar ekki rannsókn; hún leyfir landstjórninni að eins að láta rannsaka hag bankans, og hefir vafalaust ekki átt við opinbera rannsóknarnefnd. Ráðherra bar það ennfremur fram sér til varnar, að rannsókn þessi ætti að eins að vera sér til glöggvunar nú er hann tæki við yfirstjórn bankans. En þá hefir verið óþarflega hart af stað riðið, enda sjálfsagt, ef sá einn hefði verið tilgangurinn, að hafa aðra aðferð. Til slíkrar glöggvunar hefði verið nægilegt að nota stjórnkjörna endurskoðarann. Loks vildi hæstv. ráðherra verja nefndarsetninguna í Nd. með því, að hann bæri ábyrgð á Landsbankanum, og rannsóknin væri því ekkert annað en nokkurs konar úttekt á bankanum í sínar hendur. En þetta er heldur ekki rétt. Landstjórnin hefir vegna hins sérstaklega eftirlits með Landsbankanum miklu minni ábyrgð á honum en nokkurri annari landsstofnun.

En jafnframt því sem hæstv. ráðherra taldi þessar sýknuástæður fram í neðri deild 28. f. m, gat hann þess, að hann væri þá óundirbúinn að standa fyrir máli sínu, og því skal eg ekki fara nánara út í þær að svo stöddu. Nú hefir hann haft nægan umhugsunartíma, og gefst því kostur á að standa hér betur fyrir máli sínu en þar.

Eg vil ekki ætla, að hæstv. ráðherra hafi skipað þessa nefnd í illu skyni, enda þó að orð leiki á því að hann og bankastjórinn séu engir forláta vinir, fremur en nefndarformaðurinn og bankastjórinn. Eg býst miklu fremur við að hún hafi verið skipuð í fljótræði og athugalítið, eða með öðrum orðum »ósjálfrátt« eða ekki full sjálfrátt að minsta kosti, endi mundi bréfið vera skrifað á Ísafoldarskrifstofu.

En þess vildi eg óska, að rannsóknin stæði sem styzt. Því lengur sem hún stendur, þess hættulegri er hún til afspurnar, ekki að eins fyrir bankann, heldur og fyrir allan almenning og landið og jafnvel fyrir — hæstv. ráðherra sjálfan.

Að svo mæltu skal eg ekki fleirum orðum hér um fara, fyr en hæstv. ráðherra hefir gefist kostur á að bera fram varnir sínar.