03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

86. mál, Landsbankarannsókn

Lárus H. Bjarnason:

Eg er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir það, að hann hefir sýnt lítillæti og komið hingað í dag. Þessi deild á því ekki að venjast. Þegar fjárlögin voru hér til 2. umræðu, kom hann t. d. ekki, og þurfti þó framsögumaður margt við hann að tala.

Hæstv. ráðherra vill gera þetta mál að flokksmáli, en það lánast honum ekki. Málinu var að vísu fyrst hreyft í minnihlutablöðunum, sérstaklega í »Reykjavík«, en »Þjóðólfur« og »Þjóðviljinn« hafa tekið í sama streng, og því miður getur minnihlutinn, sem nú er, ekki talið þau til síns flokks. í »Þjóðviljanum« 30. f. m., er meðal annars komist svo að orði:

»En hvað sem því líður, hefði það verið heppilegra bæði frá sjónarmiði landsjóðs, sem er eigandi bankans, og frá sjónarmiði almennings, að ráðherrann hefði hagað svo til, að hann hefði »kynt sér hag bankans«, án þess að gera það heyrum kunnugt á þann hátt, sem orðið er. Hvorki sparisjóðsinnieigendur né erlendir lánveitendur bankans geta vitað, hvort tilefni rannsóknarinnar er, og geta skapað sér einhverjar grýlur, þótt engin ástæða sé til.«

Og »Þjóðólfur«, fornkunningi minn, tekur enn fastar í sama streng:

»En hann hefir eflaust ekki nægilega athugað það áður, að nefndarskipun þessi gæti orðið óþægileg fyrir stofnun þessa, hnekt áliti hennar og lánstrausti erlendis, og vakið ókyrð hér í bænum, því að hefði honum verið það nægilega ljóst, mundi hann eflaust hafa hagað eftirliti þessu á annan hátt, og látið það t. d. fara fram smátt og smátt í kyrþey. Og svo hefði átt að vera».

Enn segir sama blað:

» ... Því verður ekki neitað, að nefndarskipun þessi hefir að minsta kosti í bili gert Landsbankanum óþægindi, þótt vonandi sé að það verði honum ekki til stórtjóns«.

Og ennfremur:

»Nefndarskipun þessi var ei að síður fljótráðin«.

Loks klykkir blaðið þannig út:

» ... enda er það mikill fjöldi flokksmanna nýju stjórnarinnar, sem gjarnan hefðu óskað, að minnihlutinn hefði alls ekki fengið þetta tilefni til að hengja hatt sinn á, því að þótt snaginn sá reyndist ekki jafn-haldgóður, sem mótstöðumenn stjórnarinnar gerðu sér vonir um, þá er það ekki forsjá stjórnarinnar að þakka«.

Eg verð ennfremur að líta svo á, að meirihlutanum, sem leyfði þessa fyrirspurn, hafi ekki sýnst hæstv. ráðherra gera nægilega hreint fyrir sínum dyrum með yfirlýsingu sinni í Nd., því annara hefði hann auðvitað ekki leyft fyrirspurnina. Og Landsbankastjórninni, sem einn af helztu mönnum meirihlutans situr í, hefir fundist einhvers við þurfa, úr því að hún fór að slá upp gulum og rauðum »plakötum« með feitu letri, til þess að friða almenning og lýsa því yfir að engin hætta væri á ferðum. Og þá er seinast enn ekki sízt alt yfirklór hæstv. ráðherra ekki hvað lakasta sönnunin. Hann lýsti því yfir 28. f. m., áður en blöð minnihlutans höfðu minst á málið, að honum hefði ekki gengið til neinn illur grunur á bankastjórninni. Hann lét auglýsa þetta út um allan bæ, síma það til annara landa og bað Íslandsbanka að vera við búinn að hjálpa Landsbankanum. Þetta er átakanleg sönnun fyrir því að hæstv. ráðherra sá það sjálfur, að hann hafði hlaupið á sig. »Qui s’excuse s’accuse«, þ. e. sá sem afsakar sig, ásakar sig.

Annars má það vera mikið ánægjuefni bankanum sjálfum, og öllum sem honum unna, hve litlar aðfinningar hæstv. ráðherra hefir fundið gegn honum eftir langa umhugsun og nákvæma leit.

Hæstv. ráðherra varði sig fyrst með því, að nefndarsetningin væri samkvæmt fyrirskipun 26. gr. laga um stofnun landsbankans frá 18. sept. 1885. Þetta er ekki rétt, og skal eg með leyfi hæstv. foraeta lesa greinina upp. Hún hljóðar svo:

»Stjórn bankans er ávalt skyldug að gefa landshöfðingja allar þær upplýsingar um bankann, sem honum kann að þykja ástæða til að heimta. Landshöfðingi getur og hvenær sem er látið rannsaka allan hag bankans«.

Hér er rannsókn heimiluð en ekki skipuð. Það sendur »getur« en ekki skal. Og vitanlega er ekki átt við setning opinberrar rannsóknarnefndar, og gengið út frá því sem gefnu, að æðsti valdsmaður landsins kunni að gæta varúðar fullorðins manns. Enda væri fróðlegt að vita, hvar hæstv. ráðherra hafi heimild til þess að brúka landsfé til jafn fráleitrar og óþarfrar ráðstöfunar og þessi rannsókn er.

Hæstv. ráðherra var mikið sár út af því, að nefndarsetningin skyldi hafa verið gerð að opinberu máli. En mér er spurn, hví sárnar honum það, sé hún eins sjálfsögð og hann nú segir hana. Og því uppálagði hann ekki nefndarmönnunum og bankastjórninni að þegja um tilræðið, hafi hann ætlast til þagnar.

Hvernig getur hann vænst þagnar af öðrum, þegar hann kann ekki sjálfur að þegja eða fyrirskipa þögn.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að hann hefði sett nefndina til þess að hann gæti glöggvað sig á öllum hag bankans. En það getur ekki verið satt. Þeim tilgangi hefði hann getað náð jafnvel með því að senda stjórnkjörna endurskoðandann, forstöðumann 1. skrifstofu sinnar, til þess að forvitnast um það í hljóði, sem honum lék forvitni á að kynnast, eða þá annan trúnaðarmann, hafi hann ekki trúað skrifstofustjóranum til fulls.

Og loks sagði hæstv. ráðherra að hann hefði orðið að setja nefndina vegna ábyrgðar þeirrar, er hann hefði tekið við á bankanum. En sú varnarástæða er líka ónýt. Ábyrgð hans á Landsbankanum er minni en á nokkurri annari landsstofnun vegna eftirlits þess, sem þingið hefir með bankanum. Og hvers vegna hefir hann þá ekki beitt sömu aðferð við aðrar peningastofnanir landsins, og gjaldheimtumenn þess, sem engu slíku eftirliti eru háðir? Hvers vegna hefir hann ekki látið rannsókn fara fram á pósthúsinu og á ritsímastöðinni, er fara með hundruð þúsundir króna. Hvers vegna hefir hann ekki látið fara fram rannsókn hjá sýslumönnum og bæjarfógetum og öðrum gjaldheimtumönnum, svo sem umboðsmönnum. Mér er sagt að einum umboðsmanni hér nærlendis liggi við gjaldþroti. Hví er ekki hafin rannsókn gegn honum um fjárheimtu hans fyrir umboðið.

Og enn er ein stofnun, sem hæstv. ráðherra hefði mátt líta eftir ekki síður en eftir Landsbankanum, og það er Íslandsbanki.

9. gr. laga 7. júní 1902 hljóðar — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið: »Vegna réttar þess, sem bankinn nýtur til seðlaútgáfu, skal hann háður eftirliti landstjórnarinnar samkvæmt nánari ákvörðunum í reglugerð bankans, sem staðfest skal af ráðuneytinu fyrir Ísland«.

Og í 22. gr. í reglugerð bankans 25. nóvber. 1903 stendur:

» ... ráðherra Íslands hefir rétt til þess, hvenær sem hann vill, að heimta sýnt og sannað, að málmforði bankans sé í hinu lögákveðna hlutfalli við seðla þá, sem í veltu eru, og auk þess hefir hann aðgang að framkvæmdarstjórnarumræðum og rétt til þess, hvenær sem vera skal, að láta sýna sér bækur bankans og skjöl«.

Hversvegna hefir hæstv. ráðherra ekki notað þennan rétt til þess að líta eftir Íslandsbanka. Sá banki er að vísu einstakra manna eign, en hann fer með einhvern dýrmætasta rétt hverrar þjóðar, seðlaútgáfurétt landsins. Hann gefur út bankavaxtabréf sem ganga kaupum og sölum milli manna, og hann ávaxtar og geymir mikið af fé manna. Og hann er svo sem engu eftirliti háður, því að þingkjörnu fulltrúarnir hafa eftir reglugjörð Albertis svo sem ekkert að segja. Og stjórnkjörni endurskoðandinn kvað ekki koma þar nema með höppum og glöppum, einu sinni í mánuði eða svo.

Eg endurtek það, hvers vegna hefir ráðherra ekki líka látið rannsaka Íslandsbanka?

Hæstv. ráðherra fann Landsbankanum aðallega þrent til foráttu. Í fyrsta lagi, að reikningar bankans hefðu ekki verið sendir stjórnarráðinu í 5 ár, og ekki verið úrskurðaðir öll þessi ár, en sé þetta satt er sökin fremur landstjórnarinnar en bankans, sé annars um nokkura sök að ræða, sem eg þó ekki get kannast við, því að reikningarnir eru árlega prentaðir í stjórnartíðindunum, og má því lesa þá þar. Og hvað sem því líður, þá er nú, er því er slegið föstu, að reikningarnir hafi ekki verið sendir stjórnarráðinu, ekki þörf á þriggja manna nefnd til að rannsaka það atriði. Í öðru lagi fann hæstv. ráðherra landsbankastjórninni það til foráttu, að ekki hefði verið haldin gjörðabók í bankanum, en um gjörðabók þessa er það að segja, að bankalögin nefna hana hvergi á nafn, og aðeins gjöra ráð fyrir því í bankareglugjörðinni að slík bók sé haldin, en hvergi nein fyrirmæli um hana. Og sé það víst að slík bók sé ekki til, þá er að minsta kosti ástæðulaust að skipa nefnd til að rannsaka það atriði. í þriðja lagi mintist hæstv. ráðherra á það, að blaðið »Reykjavík« hefði álasað stjórn Landsbankans fyrir það, að veita manni fyrir vestan 35 þús. kr. lán tryggingarlaust eða tryggingarlítið. Þessa lánveitingu þarf ekki að upplýsa. Það hefir »Rvík.« nægilega gjört. Og hvað aðrar lánveitingar snertir, þá mun það sízt af öllu vera á nefndarinnar færi, að rannsaka hvort þær sé vel eða illa trygðar, enda veit eg ekki til hvers bankastjórn væri til, ef hún ætti ekki að ráða því, hvort hún veitir lán og þá með hvaða skilyrðum, eða veitir ekki lán.

Þessara þriggja atriða vegna þurfti ekki að skipa þessa nefnd, og með því að hæstv. ráðherra hefir ekki tilfært aðrar ástæður, þá sé eg ekki betur en að nefndarskipunin hafi verið alveg óforsvaranleg. Hitt er satt, að það lítur ekki út fyrir að hún ætli að verða bankanum að stórtjóni, en það er ekki hæstv. ráðherra að þakka. Það sannar bara að almenningur trúir bankanum betur en hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra fullyrti að nefndarskipunin hefði ekki haft nein óþægindi í för með sér fyrir bankann, og taldi það sönnun fyrir því, að hún væri óaðfinnanleg. En fyrst er þetta nú ekki satt, og svo má ekki dæma það og það tilræði eftir leikslokum.

Það er til margskonar lukka, góðra manna lukka, slempilukka og enda strákalukka. Það slampast margt af þó illa sé til stofnað. Og eg verð að halda fast við, að þessi »generalprufa« hæstv. ráðherra á Landsbankanum hafi verið mjög hættuleg, þó ekki sé útlit fyrir að mikið tjón muni af henni hljótast. Eg hefi áður líkt Landsbankanum við litla bátskel og ástandinu hér í landinu við úfinn sjó. Hæstv. ráðherra hefir farið að líkt og maður, er staddur væri í lítilli bátskel á úfnum sjó og stykki alt í einu út í annað borðið til þess að reyna hvort fleytan væri stöðug eða völt. Það mundi ekki verða kölluð góð sjómenska, enda þótt slys hefði ekki orðið að, af því vanir sjómenn og snarráðir voru innanborðs, er köstuðu sér út í hitt borðið.

Eg get því ekki betur séð, en að þessi ráðstöfun sé óþörf og enda ólögleg. Og að minsta kosti er hún eftir öllum atvikum óréttlætanleg, enda hefir hæstv. ráðherra ekki heldur tekist að réttlæta hana. Því að smámunir þeir, sem hann týndi fram, sanna miklu fremur óþarfleik nefndarinnar en réttlæta hana, svo aumir eru þeir, þótt sannir væru.

Það vill svo vel til, að 2 menn úr stjórn Landsbankans sitja hér í deildinni, og þeir geta því svarað því, sem hæstv. ráðherra vék að bankastjórninni.

Að endingu leyfi eg mér að lesa upp dagskrá, sem eg bið hæstv. forseta að bera undir atkvæði deildarinnar. Hún hljóðar svo:

»Deildin telur rétt, að landstjórnin líti eftir peningastofnunum landsins, en væntir þess, að það sé gert með varúð, og tekur í því trausti fyrir næsta mál á dagskrá«.

Eg vona, að allir greiði atkvæði með þessari dagskrá. Eg tel víst, að allir vilji láta líta eftir bönkunum og jafnvíst, að allir séu ásáttir um að það verði að gjöra með nauðsynlegri varúð. Þetta efast eg ekki um. Nafnakallið, sem eg hefi beðið um, á að eins að sýna, að þetta sé ekki flokksmál.