05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

162. mál, símskeytarannsókn

Skúli Thoroddsen:

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat um símskeytið, sem eg sendi konungi, og hvað það hefði kostað. Eg skal geta þess, að ástæðan fyrir því, að símskeytið var svo langt var sú, að konungi var ókunnugt um, hvernig sakir stóðu í þinginu. Varð eg því að gera glögga grein fyrir öllu. Meðal annars var í skeytinu skýrt með nöfnum frá atkvæðagreiðslunni í vantraustsyfirlýsingunni til fyrv. ráðh. (B. J.) Það er algerlega rangt af háttv. þm., að halda því fram, að eg hafi verið að trana mér fram; því fer svo fjarri að það hafi verið gert með einu orði. Það er alls engu að leyna í símskeytum þeim, er minn flokkur sendi. En okkur þykir kynlegt, að háttv. þm. skuli ekki hafa lagt fram símskeyti sitt. En orsökin fyrir því mun vera sú, að vopnum blekkinganna og lyganna mun hafa verið beitt, til þess að gera ráðherraskiftin eins og þau urðu. Það væri hægt að leiða rök að því. Það hlýtur að vera ástæðan fyrir því, að hann vill ekki sýna það. Því má þjóðin ekki sjá þessi símskeyti, sem mótstöðumenn mínir hafa sent? Mér finst, að þeim ætti sjálfum að vera umhugað um, að þau kæmu fram í dagsbirtuna. Háttv. þm. var að bregða mér um persónulega heift. Þetta er alveg rangt hjá honum, enda á alls engum rökum bygt. Blað mitt, »Þjóðviljinn«, ber það með sér, að eg hefi ætíð skýrt stutt og rétt frá málavöxtum hvers máls og að blekkingum þeim, er aðrir beita, er andmælt. Fjöldi manna grípa til blekkinga og lyga til þess að koma sínu máli fram. En þeir sem gera slíkt, verða óðir og uppvægir, ef það kemst upp. Þetta hafa andstæðingar mínir gert. Það er alveg ástæðulaust að bregða mér um heift. Það mætti miklu fremur bregða háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) um slíkt. Þetta kom svo ljóslega fram hjá honum í gær, þá er rætt var um ferðakostnað handa forseta sameinaðs þings, sem boðinn er til Frakklands. En af því að það er eg, sem á að fara þessa för, sem eg ef til vill hefði gaman af og gæti hrest mig, þá stendur allur heimastjórnarflokkurinn upp og greiðir atkvæði móti fjárveitingunni. Ef þetta er ekki gott dæmi þess, hvernig sú pólitíska barátta er hér á landi, þá veit eg ekki, hvað söguritararnir geta hagnýtt sér.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) var að skírskota til þessara heiðursmanna í sínum flokk. Sagði hann að þeir þektu innihald símskeyta hans. En hér við er það að athuga, að þessum mönnum voru ráðherraskiftin mjög mikið áhuga- og kappsmál. Það var um það að tefla, hvort völdin lentu hjá þeim manninum, sem hefir verið eins og viðbót við konungkjörna heimastjórnarliðið, eða ekki. Þetta skifti svo miklu, að allir þessir heiðursmenn gætu vel brugðið frá sannleikanum. Eg álít rétt, að skjölin séu lögð á borðið. Það hefir að vísu ekki þýðingu fyrir liðna tímann, því að það sem er skeð verður ekki aftur tekið. En það gæti haft þýðingu fyrir framtíðina. Það er áríðandi að vita, hvort konungur hefir verið blektur. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagðist mundi sýna forsetum efri og neðri deildar sín símskeyti, þá er háttv. þm. Barð. (B. J.) og eg hefðum sýnt okkar skeyti. En ef svo er, verð eg að taka mér það vald að krefjast þess, að hann sýni forseta sameinaðs þings þau einnig.