18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

130. mál, tollalög

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þegar rætt er um að hækka tollinn á kaffi og sykri, eru venjulega færðar þær ástæður á móti því, að þetta komi þyngst niður á fátæklingum og þó einkum í sjóplássum. Þetta mun þó liggja meira í því, að þeir hafa meiri þörf fyrir þessar vörur en sveitafólk, sem ekki lifir í þurrabúð. En hins vegar er það mjög óvíst, að fólk í sjóplássum brúki meira af þessum vörum en sveitafókið. Að vísu dettur mér ekki í hug að neita því, að þessar vörur, einkum sykurinn, séu eða megi skoðast sem nauðsynjavörur, meðan þær eru brúkaðar í hófi. En þó er t. d. brúkað hlutfallslega meira af sykri hér en í Noregi og flestum öðrum löndum, svo að ekki er beint hægt að segja, að nærri sé gengið lífsnauðsynjunum að því að hækka tollinn ofurlítið á þeim. Þess ber einnig að gæta, að horfurnar eru öðru vísi nú en áður, þar sem útgjöld landssjóðs hafa aukist. Þess vegna verður að auka tekjurnar, enda þótt slíkt hljóti að koma niður á almenningi. Og þótt tollhækkun á sykri og kaffi hafi verið mótmælt á þingmálafundum, þá hafa mótmælin aðallega verið gegn því, að tollurinn væri hækkaður svo mikið, að hægt væri með því að fylla hið stóra skarð, sem bannlögin höggva í tekjurnar við það, að vínfangatollurinn hverfur að miklu leyti. Þegar á alt er litið, hygg eg ekki, að þessi hóflega hækkun muni valda mikilli óánægju meðal þjóðarinnar eða koma sérlega þungt niður á almenningi.