22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Ráðherra (B. J.):

Eg held eg verði að byrja á, að taka mér í munn orð hins sprengvirðulega konungkj. þingmanns, sem eg aldrei man á númerið, að öll þessi hans ræða, sé frá upphafi til enda, ekkert annað en meiri háttar leikhúshvellur; átyllulaus stóryrði og blekkingar.

Eg ætla mér nú ekki að verða eins víðförull, eins og sá hv. konungkjörni var, er síðast talaði; þar sem hann blandaði saman silfurbergi, gufuskipaferðum, bankarannsókn, fjárlögum og aukafjárlögum og ýmsu því um líku; heldur ætla eg einungis að halda mér við það efni, sem dagskráin lýtur að — svo nefnt bankamál. Virðul. framsögum. var æði digurmæltur um það atriði, að afsetning gæzlustjóranna hefði verið fyrir fult og alt; og taldi það vera hina mestu lögleysu; en eg þykist þess fullviss, að engum muni kunnugra en honum um það, að með tilvitnuninni: lög um stofnun Landsbanka frá 1885, var gefið til kynna, í frávikningar-úrskurðinum, að gæzlustjórunum væri einungis vikið frá, um stundarsakir; og þar með hygg eg hrundið vera öllum öfgunum, ósköpunum og ýkjunum, sem virðul. framsögum. spann út af því, að afsetningin væri og hefði verið allsendis ólögleg. — Þá var það eitt, sem hann fann mér til foráttu, að eg hefði í blaði sonar míns, Ísafold, kallað gömlu bankastjórana, daginn eftir að þeim var vikið frá: valinkunna sæmdarmenn. Í því átti að felast eitthvað meira en lítið svívirðilegt. Mér er ekki skiljanlegt hvað? Eg þekki alla mennina persónulega sjálfur, og veit að þeir eru allir heiðvirðir, ráðvendnis- og sæmdarmenn; engum dettur í hug að halda, að þeir hafi dregið sér einn eyri af fé bankans. — En mennirnir hafa verið ofhlaðnir öðrum störfum, og af því hlýtur aðallega að stafa óreglan og sukkið, sem komið var á í bankanum — af því og sennilega engu öðru.

Þá kem eg að öðru atriði í ræðu hans nfl. varasjóð bankans; hann virtist vilja halda því fram, að varasjóðurinn hefði aldrei verið veðsettur Landmandsbankanum; eða þótt svo hefði verið, þá skifti það litlu máli hér, — jú, bankastjórnin gamla þrætti líka fyrir veðsetninguna, þrátt fyrir ómótmælanlegar sannanir, og þessvegna er kannske ekki undravert þótt virðul. framsögum. geri það líka. —

Þá vildi hinn virðulegi konungkjörni þingm. (L. H. B.) véfengja það að bankinn tapi 400,000 kr. En ekki tekst honum betur þar en endranær, ástæður engar bara eintómar ágizkanir og loftkastalar og: hégómlegustu vafningar. —

Sjálf skýrsla rannsóknarnefndarinnar sannar ótvírætt að tapið er minst 400,000 kr. Og nefndin hefir farið þar eftir þeim nákvæmustu rannsóknum sem hugsanlegt var.

Eg er ekki í neinum vafa um það, að það hefði verið öldungis óverjandi af mér sem stjórnanda, að láta bankastjórn, sem vanrækt hafði svo skyldustörf sín sem þessi, sitja lengur í stjórn bankans, — það hefði verið alveg óverjandi. — Auk þess sýnir öll rannsóknarnefndarskýrslan ljóslega, að bæði réttmætt, nauðsynlegt og óumflýjanlegt var að víkja mönnum þessum þegar í stað frá störfum þeirra.

Ummælum virðul. konungkjörna þingmanns um að eg sem ráðherra hafi gert hitt og þetta, til þess að spilla áliti bankans, utanlands og innan, vísa eg frá mér, sem gersamlega ósönnum og órökstuddum sleggjudómum. Það er einmitt sannanlegt, að bankanum hefir stórum aukist traust, eftir að rannsóknin var fyrirskipuð; þrátt fyrir það þótt ýmsir þeir menn, er þykjast bera hag hans fyrir brjósti, hafi oftar en einu sinni gert að honum aðsúg, til þess að reyna að veikja traust hans og viðgang.

Þessa rengingu á tapinu, eða vissunni um það, bygði hinn afburðavirðulegi kgk. þm. nr. 5 á dálítið skrítinni athugasemd, nefnilega, að mennirnir sem taldir eru öreigar, geti unnið í lotteríinu! Þetta finst mér ærið bíræfið, eg get ekki annað sagt. Mér datt í hug, er eg heyrði þetta, dálítið sem dönsku bankamennirnir sögðu frá hér. Þessir menn, sem aldrei hafði verið beðið um héðan, en voru sendir af aðalviðskiftastofnun Landsbankans, til að rannsaka ástand bankans, þeir komust að nákvæmlega sömu niðurstöðu um hag hans og stjórn gömlu bankastjórnarinnar sem rannsóknarnefndin, og getur þó enginn dróttað að þeim hlutdrægni. Þeir gátu um, að slíkt óstand hefði verið í banka einum í Danmörku, í Fredericia, bankastjórinn hefði lánað út fé bankans gegndarlaust og gegn ónýtum tryggingum. Og er hann var eitt sinn spurður, hvort hann gæti látið sér detta í hug, að maður nokkur, er hann hafði lánað mikla fjárhæð, gæti nokkurntíma endurborgað hana, þá svaraði hann: „Hann gæti unnið í lotteríinu!“ Mér datt þessi saga í hug, og gat þessvegna ekki varist hlátri, þegar hv. 5. kgk. þm. afsakaði lánveitingar hinnar fráförnu bankastjórnar með þessari sömu óvenjulegu viturlegu athugasemd! — Eg get ekki verið að fara út í smáatriði, eins og þá skáldsögu, að framkvæmdarstjóri hafi verið rekinn upp úr sæti sínu, er hann var að undirskrifa útgjaldaskipun fyrir víxli; það er auðvitað skáldað eins og margt annað, sem hér hefir verið sagt.

(Kristján Jónsson: Það er ekki skáldsaga; eg sat við hlið hans er þetta gerðist.)

En það er ekki smáatriði, er flutningsmaður leyfir sér að þræta fyrir það, að sparisjóður hafi ekki verið gerður upp í 8 eða 9 ár; því að fyrir því er blátt áfram frásögn bankamannanna sjálfra. — Heimildin til að víkja bankastjórninni frá — en það er ráðstöfun sem stjórnin áleit sér skylt að gera vegna þess voða, er bankinn var staddur í — felst í gömlu bankalögunum, því þau voru í gildi, þá er þetta gerðist, þ. 22. nóv. 1909. Hin nýju lög gengu ekki í gildi fyr en 1. jan. 1910, og gátu ekki verkað fram fyrir sig. Óhlutdrægir lagamenn verða að viðurkenna, að hver sú ráðstöfun er lögleg, sem gerð er meðan þar að lútandi lög eru í gildi. — Eg sagði að frávikningin hefði verið „um stundarsakir“, enda var í afsetningarbréfinu vitnað í þá grein í lögunum (frá 1885), er heimilar frávikning um stundarsakir. Þau orð geta átt við viku, mánuð, missiri, ár, og þar fram yfir. Það er því ekkert ólöglegt í því, þó þessi frávikning um stundarsakir standi enn, þó ekki væri í fyrstu ætlast til að hún stæði svo lengi. Ástæðan til þess að afráðið var að víkja bankastjórninni frá um nokkurn tíma var sú, að að öðrum kosti hefði verið ókleift að ljúka rannsókninni, þar sem þeir töfðu hana á alla lund og gerðu nefndarmönnum ókleift að koma fram störfum sínum. Það var eins og flutningsmanni fyndist það ofur eðlilegt, að bankastjórnin kæmi þannig fram við nefndina, þar sem hún hefði verið illa skipuð, mennirnir ýmsum ókostum búnir, öðrum háðir o. s. frv. Þetta er einber hégómi. Mennirnir voru vel valdir, óháðir stjórninni og öðrum. Þessu til sönnunar get eg getið þess, að formaður nefndarinnar síðari, er var þá þegar orðinn konunglegur sýslumaður, og hafði eg þó búist við að hinn hávirðulegi 5. kgk. þm. bæri virðingu fyrir þeirri stöðu, var þegar er hann tók sæti í nefndinni stórsvívirtur og smánaður í aðalmáltóli þessa kgk. þm., og þeim svívirðingum óðar snúið á dönsku og sendar dönskum blöðum svo sem siður er í þeim herbúðum. Þessar aðfarir heimastjórnarblaðanna eru öflugasta sönnunin fyrir því, að þessi maður er mjög heiðvirður maður. En nú munu margir spyrja, hví þessi frávikning „um stundarsakir“ standi enn.

(Lárus H. Bjarnason hlær).

Þessi nauðavirðulegi kgk. þm. getur rekið upp hlátur þegar hann heyrir ástæðuna, en líklega verður hún honum nokkuð stirður biti í hálsi. Eg hafði hugsað mér að láta gæzlustjórana taka við starfi sínu aftur um áramót, því að þá gætu þeir ekki lengur tafið fyrir rannsókninni á bankanum, enda yrði henni þá að mestu lokið. Mér hefði enda verið þetta miklu ljúfara; mér var ekki í nöp við þessa menn, hafði talið þá góða vini mína. En er útlendu bankastjórarnir fréttu, að stjórnin hefði þetta í hyggju, sögðu þeir berum orðum, að ef það yrði gert, þá hlytu þeir að leggja það til við umbjóðendur sína, stjórn Landmandsbankans, að slitið væri viðskiftasambandi hans við Landsbankann. Eg geri ráð fyrir að ýmsa menn langi til að véfengja þetta, en það vill svo slysalega til fyrir þá, að að þessu eru margir vottar. Hvað lá þá við, ef stjórnin framkvæmdi áform sitt? Viðskiftaslit við Landmandsbankann, sem þá átti alt að 8 hundruð þús.kr. hjá Landsbankanum. Skuldinni hefði verið sagt upp fyrirvaralaust, og Landsbankinn hafði engin ráð með að borga, hefði orðið gjaldþrota. Í þennan voða mátti stjórnin, sem vildi vera samvizkusöm gagnvart bankanum, ekki stofna honum og því stendur frávikningin enn.

Hvort þessar tillögur bankamannanna hefðu verið réttmætar, fer eg ekki út í, en hitt er það, að allar líkur eru til þess að stjórn Landmandsbankans hefði farið að ráðum trúnaðarmanna sinna. — Eg get lýst því skýlaust yfir, að hvert það viðvik, sem stjórnin hefir gert í bankamálinu, er löglegt og fullverjandi í alla staði. Ef óhlutdrægir dómarar ættu um að dæma, þá mundi fullu trausti verða lýst á stjórninni fyrir gerðir hennar í þessu máli.

(Kristján Jónsson: Það mun koma í ljós nú. Málið verður dæmt hér í deildinni!)

Eg marka minna en ekki það sem hinir seku menn sjálfir eða þeirra talsmenn hrópa upp. — Hinn hávirðulegi 5. kgk. þm. vitnaði í það, að eg hefði lýst þessa tvo menn, gömlu gæzlustjórana, valinkunna sæmdarmenn. Á það þá að vera glæpur! En annars er ekkert annað sagt með þessu en að eg, — eg kannast við að orðin séu frá mér komin, — sé alsannfærður um að þessir menn hafi ekki haft af bankanum vísvitandi einn eyri sér í hag. Auðvitað mátti láta þetta ósagt, og hefðu margir gert, en mér fanst hlýða að lýsa þessari sannfæring minni, að misfellurnar á eftirliti þeirra með stjórn bankans hafi eigi verið sprottnar af þeim ásetningi að baka bankanum tjón, heldur af vangæzlu og vanrækslu. Eg get ekki séð, að hreinlegar og drengilegar verði að farið og finst mér sjálfir mennirnir ættu að vera mér þakklátir fyrir þessi orð.

Eg hygg nú, að eg hafi skýrt þetta mál nægilega fyrir öllum, sem rétt vilja dæma. Eg tel það alls óþarft, að skipa nefnd í málið, því að það er rannsakað til hlítar, að því leyti sem dómstólar eiga ekki um að dæma, en sú hlið málsins bíður fullnaðarúrslita hæstaréttar, og kvíði eg þeim ekki. — Hv. flutningsmaður rausaði mikið um skipaferðir, Thorefélagið o. s. frv. Finst mér ekki hlýða að svara þeirri langloku nú, það mál kemur til umræðu, þegar fjárlög og fjáraukalög verða rædd.

Flutningsmaðnr talaði margt um silfurbergsmálið, og var flest, sem hann sagði, rangfærslur og ósannindi. Hann sagði meðal annars, að eg hefði samið við son minn um sölu á leiguréttinum að námunum eða að hann hefði verið í því félagi, sem leigurétturinn var seldur. Þetta er hégómaþvaður, sem gengið hefir manna í milli og auðvitað var tekið með fögnuði af hv. 5. kgk. þm. og hans félögum, og skal eg ekki fara frekar út í það, en að lýsa það helber ósannindi. Sömuleiðis sagði flutningsmaður, að eg hefði gert það fyrir hann, son minn, að veita samþykki mitt til þess að þetta félag seldi leiguréttinn öðru útlendu félagi. Þetta er líka rangfærsla. Eg gerði ekki annað en það sem eigendur leiguréttarins áttu heimtingu á, sem sé að leyfa þeim að framselja öðrum leiguréttinn gegn því að landsjóður héldi öllum sömu réttindum. Svo að eg víki aftur að hinni upprunalegu sölu, þá skal eg taka það fram, að þá er námurnar voru auglýstar kom að eins eitt nýtt tilboð. Sá sem þangað til hafði haft námuna á leigu bauð lægra en nýja tilboðið, og því var það tekið. Eg get bætt því við, að þegar leigutími fyrri leigjandans var útrunninn, var hæpið að treysta því að nokkur ögn væri eftir af námunum. Það þurfti því að fá útlenda menn með ærnum kostnaði til að rannsaka, hvort meira væri eftir. Það er eðlilegt að ekki vilji nema útlend miljónafélög ráðast í slíkt fyrirtæki; en þau horfa ekki heldur í að leggja upp á von og óvon stórfé í að leita að dýrum málmum. Það er óvíst að landssjóði hefði borist sama tilboðið, sem íslenzka félaginu, ef hann hefði átt í hlut. Prívat-menn standa oft miklu betur að vígi í slíkum efnum.