22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Ari Jónsson:

Það eru þarfir menn, þeir sem bera á völlinn, sagði einn helzti Heimastjórnarmaðurinn nýlega, er við áttum tal saman um Lárus Bjarnason.

5. konungkjörinn hefir borið ósleitilega á völlinn fyrir Heimastjórnarmenn, bæði utan þings og innan. Hann er duglegur en í meira lagi vanhygginn. Þar er ekki fyrirhyggja eða forsjálni. Síðustu árin hefir hann með dugnaði miklum ausið svo miklum auri á ýmsa mikilhæfa mótstöðumenn sína, að jafnvel Heimastjórnarmenn hafa hrist höfuðið yfir svo óhyggilegri bardagaaðferð; mætustu menn í hans flokki fyrirlíta þá aðferð hans. Þessa aðferð sína hefir hann sýnt í Reykjavíkinni og ef til vill í Lögréttumóunum líka. Svona aðferð beitir hann einnig hér. Hann hefir borið með sér mestan aurinn inn í þessa deild, slíkan óþverra hefir enginn flutt hér inn, sem þessi fimti præmíu-gripur — eða præmíu-garpur ætlaði eg nú að segja.

Það er enginn hygginn stjórnmálamaður, sem beitir sér þann veg gegn sínum mótstöðumönnum eins og Lárus Bjarnason hefir gert, 5. kgk. þingm. Enda hefir hann nú aldrei þótt bera vitið í böggum, eins og menn kannast við að komist hafi verið að orði um hann.

Í þessu máli, sem nú er á dagskrá, hefir hann hallað svo réttu máli, sem höfuð hans hefir haft vit til.

Hann hefir forðast að koma að aðalatriðinu, af því að þar hefir hann átt örðugast með að rangfæra, en hann hefir haldið sér mest við þau aukaatriði, er mest tvímæli eru um, en minsta þýðingu hafa fyrir aðalkjarna málsins.

Hann hefir borið saman skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu gæzlustjóranna og haldið því með mestu alvöru fram, að þeir, gæzlustjórarnir, væru hreinir sem mjöll. En allir sjá, nema hinn litblindi „fimti,“ að eitthvað er nú mislitt.

Eg vil leyfa mér að minnast á fáein atriði við samanburð skýrslnanna, og er þá fyrst fyrir sparisjóður Landsbankans.

Það er mikilsverð stofnun. Um ellefu þúsundir manna, eða um áttundi hver maður í landinu, áttu inni fé þar, sem þeir höfðu sparað, þegar þetta bankamál byrjaði. Við áramótin 1908—09 var það talsvert á þriðju miljón í þessum sjóði. Þessum sparisjóði hefir fylgt sérstakur varasjóður, (ekki varasjóður Landsbankans). Varasjóður þessi var við sameininguna 26 til 27 þúsundir. Í hitt eð fyrra var hann kominn niður í níu þúsundir. Með öðrum orðum, hann hafði minkað um 17 þúsundir.

Hvernig hann hefir minkað, vita menn ekki gjörla.

Bankastjórnin hafði álitið sér heimilt að gefa úr þessum varasjóði, eftir því sem rannsóknarnefndarskýrslan ber með sér.

Hvort mundi það álítast hyggilegt að láta varasjóð minka svo, þar sem hann á að tryggja sparisjóðinn tapi.

Það er sannarlega ekki vel á haldið, ef hann hefir runnið svo saman sem skýrslan ber með sér.

Þá kem eg að öðru atriði. Bankastjórnin á að ákveða um tryggingar þær, sem settar eru fyrir lánum í fyrstu, og svo er og þegar lánin koma til framlengingar. En það er jafn-nauðsynlegt að athuga tryggingarnar er um framlengingu er að ræða.

Þessu ákvæði um tryggingar hefir ekki verið fylgt. Bankastjórnin hefir ekki ætíð verið þar í ráðum, heldur oft og tíðum framkvœmdarstjóri einn, og hefir þetta haft það í för með sér, að sum skjöl voru í ólagi.

Víxlarnir hafa oftast verið veittir af framkvæmdarstjóra einum, og segja gæzlustjórar að ókleift hafi verið fyrir sig að vera við.

Orsökin til þessa er óhyggilegt fyrirkomulag.

Gæzlustjórarnir voru einn klukkutíma á dag í bankanum, og það sama klukkutímann báðir; var því framkvæmdarstjóri 2— 3 tíma einn í bankanum og veitti þá lánin einn.

Nú er sú regla á, að safna öllum skjölum, sem koma sama daginn og bera þau undir annanhvorn eða helzt báða gæzlustjórana. Slíka aðferð hefði fyrverandi bankastjórn einnig átt að hafa.

Ef gömlu bankastjórarnir hefðu alt af athugað skjölin (og það hefðu þeir getað með þeirri aðferð, er nú var bent á), þá hefði hagur bankans verið betri. Þegar þeir fara frá, liggja sjötíu þúsundir króna í protesteruðum víxlum, sem ekki hafði fengist greiðsla á.

Þeir sem á þessum víxlum standa, eru sumpart gjaldþrota menn, sumpart sveitarlimir og óreiðumenn, eftir því sem skýrslan ber með sér.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar ber það með sér, að tap bankans sé metið um 400 þúsundir króna.

Það er ekki til neins að halda því fram að þetta sé einber lygi. Það liggur fyrir að nokkuru játning gæzlustjóranna sjálfra, og í Lögréttu skýrir framkvæmdarstjórinn frá því, að tapið hafi verið 10 þúsundir króna við áramót 1907, en er bankastjórninni var vikið frá, hafi jafnvel mátt gera ráð fyrir 100 þús. og þar sem framkvæmdarstjóri gerir ráð fyrir þessu tapi, þá er ástæða til að líta svo á, að það geti verið dálítið meira.

Það er ekki til neins að segja, að hér sé ekkert tap, nema þá að bera það fram, að það sé lygi, sem framkvæmdarstjórinn segir.

Þá er varasjóður bankans. Hann er nauðsynlegur til þess að tryggja bæði útlenda og innlenda kreditora, og hann þarf einnig nauðsynlega að vera handtækur hvenær sem er, ef óhöpp bera að höndum. Enda er það ákveðið, að hann eigi að vera í konunglegum ríkisskuldabréfum eða öðrum bréfum, sem fljótt sé hægt að selja.

Margskonar nauðsyn getur borið að höndum, svo að strax þurfi að nota varasjóðinn. Útlendir kreditorar geta skyndilega sagt upp viðskiftum. Innlendir kreditorar tekið út úr bankanum fé sitt. Og verði reglulegt „run“ á bankann, þá þarf varasjóður sannarlega að vera til taks. Og til þessa var nú stofnað af Heimastjórnarmönnum, þegar bankastjórninni var vikið frá.

Eg skal geta þess, að margir þeirra manna, sem fremst hafa staðið í fylkingunni gegn stjórninni í þessu máli, stóðu einnig fremstir í fylkingu þeirra, sem ruku til með ótal sparisjóðsbækur, bæði sínar eigin og annara, og tóku út úr bankanum alt það fé, sem þeir sjálfir áttu þar inni eða höfðu umráð yfir fyrir aðra. En eg skal líka geta þess, að margir tóku aftur á móti peninga sína út úr Íslandsbanka og fluttu þá yfir í Landsbankann, einn maður t. d. 30 þúsund krónur, og sýnir það, að þessir menn hafa ekki verið búnir að tapa trausti á Landsbankanum. En það voru ekki Heimastjórnarmenn, heldur Sjálfstæðismenn.

Til þess að forðast þá hættu, sem stafað getur af ýmiskonar áhlaupum á bankann, er nauðsynlegt að varasjóður sé í lagi í handbæru fé, svo að gripið verði til hans, ef slíkt ber að höndum. En ef borin er saman skýrsla rannsóknarnefndarinnar og andsvör bankastjórnarinnar, er það auðséð, að varasjóður bankans var ekki til í þannig löguðu handbæru fé, þegar bankastjórninni var vikið frá. Því að þar getur ekki komið til greina að telja varasjóð veðdeildanna, eða tryggingarfé þeirra. Ekki heldur er hægt að telja þar til verðbréf þau er lágu hjá Landmandsbankanum, hvort sem þau hafa verið veðsett honum, eða sett til tryggingar, því að ef Landsbankinn hefði komist í fjárþröng og legið á að grípa til þeirra, þá hefði Landmandsbankinn vafalaust ekki slept, heldur haldið þeim til tryggingar skuld Landsbankans við hann, þar til henni væri að fullu lokið.

Þá skal eg minnast á víxlakaup starfsmanna bankans. Vafalaust getur stundum staðið svo á, að það sé nauðsynlegt að bankastjórnin feli framkvæmdarstjóra einum að framkvæma störf, sem bankastjórnin annars á öll að taka þátt í, þótt slíkt eigi nú ekki að eiga sér stað nema sérstaklega standi á. En það er alls engin heimild til þess að fela öðrum starfsmönnum bankans að framkvæma slík störf 25. okt. 1909 voru nú í Landsbankanum 250 víxlar, sem ekki fylgdi nein útgjaldaskipun með, og gat því eins vel verið að fleiri eða færri af þeim væru keyptir eða framlengdir af starfsmönnum bankans eins og af bankastjórninni. Það er ekki hægt að segja um það með neinni vissu, en þetta gat vel verið. Það eitt er víst, að á tímabilinu frá 31. júlí til 14. ágúst 1909, þegar Eiríkur Briem var settur framkvæmdarstjóri bankans í fjarveru framkvæmdarstjóra Tryggva Gunnarssonar, þá vissi hinn setti framkvæmdarstjóri ekki til þess að fleiri en 2 eða 3 víxlar hefðu verið keyptir eða framlengdir í bankanum án útgjaldaskipunar. En einmitt á þessu tímabili höfðu verið keyptir eða framlengdir 39 víxlar í bankanum án útgjaldaskipunar, svo að einhverja hafa starfsmenn bankans hlotið að kaupa án vitundar bankastjórnarinnar. Það sjá allir, hver hætta getur af þessu stafað, að starfsmenn bankans ráði útlánum eða víxilkaupum. Og eg skal enn taka það fram, að hættan getur verið eins mikil, þó að ekki sé að ræða um nýja víxla, heldur framlengingu á eldri víxlum. Því að tryggingin getur verið orðin miklu lélegri þegar framlengja á víxilinn, heldur en hún var í upphafi, jafnvel þó að alveg sömu nöfn séu á víxlinum.

Eg skal aðeins geta þess stuttlega, að eftir því sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar ber með sér, hefir bankinn beðið meira tap en þessar 400 þúsund kr., sem áætlað er að tapist af útistandandi skuldum. Bankinn hafði auk þess beðið tap við það, að glatast höfðu nokkrir af víxlum bankans og eitthvað af ávísunum. Annars býst eg við, að hin nýja bankastjórn geti gefið betri skýrslu um það á sínum tíma, hve miklu tap bankans muni nema, og því skal eg ekki lengja umræðurnar að þessu sinni, með því að fara lengra út í það atriði.

En það er að eins eitt atriði viðvíkjandi þessu bankamáli, sem eg skal enn leyfa mér að minnast á.

Fyrir utan það sem sýnist hafa verið athugavert við stjórn bankans, þegar bornar eru saman skýrslur rannsóknarnefndarinnar og bankastjórnarinnar, er enn eitt stórvægilegt atriði í þessu máli, sem styður það, að það hefði verið ófært aflandsstjórninni að setja gæzlustjórana inn í sæti sín í stjórn bankans aftur 1. jan. 1910. Eg á við þessi ummæli dönsku bankamannanna, sem hæstv. ráðherra hafði eftir þeim áðan. Eg efast ekki um, að hæstv. ráðherra hefir þar farið með rétt, því að einn maður hefir sagt mér, að hann hafi verið sjöundi vottur að því að þessir menn hafi sagt ráðherra, skömmu áður en þeir fóru héðan, að ef gæzlustjórarnir yrðu látnir taka sæti sín aftur í bankastjórninni, þá yrðu þeir að ráða Landmandsbankanum til þess að hætta viðskiftum við Landsbankann. Eins og þá stóðu viðskifti þessara banka, hygg eg að enginn sé í vafa um það, að það var stór ástæða fyrir stjórnina að taka tillit til þessara ummæla dönsku bankamannanna í bráðina og hætta við að setja gæzlustjórana inn í sæti sín aftur, þó að hún hafi ætlað sér það annars, eins og hæstv. ráðherra gat um.

Þá skal eg víkja frá þessu máli að öðru, sem háttv. 5. konungk. þingm. talaði um silfurbergsnámunum í Helgustaðafjalli eða samningum stjórnarinnar um þær. Eg er þessu máli nokkuð kunnugur, og eg held að það sé enginn vafi á því, að þar hafi hæstv. ráðherra hagað sér skynsamlega og náð eins góðum samningum og mögulegt var. Og eg get bætt því við, að eg stend ekki einn uppi með þá skoðun, eg hygg að aðrir, sem kunnugir eru þessu máli, muni bera hið sama, t. d. landritari og sá af skrifstofustjórunum í stjórnarráðinu, sem hafði með málið að gera. Þeir hafa báðir látið í ljósi þá skoðun, að samningar þeir, er ráðherra eða stjórnarráðið gerði í þessu máli, hafi verið mjög tryggilegir fyrir stjórnina og réttinda hennar gætt, að minsta kosti betur en áður var.

Eldri samningurinn um þessar námur, milli landstjórnarinnar og Túliníusar, var svo lítifjörlegur, réttur landsjóðs svo illa trygður, að það má heita dæmalaust að þáverandi landstjórn skyldi gera slíkan samning. Nýi samningurinn, sem hæstv. ráðherra hefir gert, er aftur á móti margfalt betri og tryggilegri fyrir landsjóð. Eg skal að eins nefna tvær ástæður til þess, að það var sjálfsagt fyrir stjórnina að taka tilboði hins nýja leigjanda.

Í fyrsta lagi var boðin hærri leiga, því að eftir nýja samningnum á landsjóður að fá í leigu 55% af ágóðanum, í staðinn fyrir 50% áður, og auðvitað var að öðru jöfnu sjálfsagt að taka hærra tilboðinu. En auk þess lá önnur ástæða til þess að það var tryggilegra að taka þessu tilboði. Það stóð nfl. svo á, að sá sem tilboðið gerði, hinn nýi leigjandi að námunum, átti aðra silfurbergsnámu sömu tegundar hér á landi, og ef sú náma hefði verið í annarra höndum en náman í Helgustaðafjalli, er hætt við að samkepni hefði orðið, verðið á silfurbergi þar af leiðandi lækkað og hagnaðurinn hefði orðið miklu minni fyrir landsjóð. — Um framsöluna á leiguréttinum er það að segja, að það er hreint og beint heimskulegt að halda því fram, að stjórnin hafi getað gert annað en hún gerði, t. d. að hún hefði átt að krefjast einhvers hluta af söluupphæðinni, þegar hinn nýi leigjandi seldi leigurétt sinn. Hann seldi auðvitað ekki annað en rétt sinn samkvæmt leigusamningnum við stjórnina; það var aðeins um framsal að ræða, og það var ómögulegt að meina honum það. Auk þess hefði verið alveg þýðingarlaust að hafa á móti því af þeirri ástæðu, að það hefði verið ofurauðvelt að fara í kringum það, þó að stjórnin hefði bannað framsalið. Þessir útlendingar, sem í hlut áttu, hefðu getað keypt námuréttinn alt að einu. Vér vitum, að leppmenska er altíð hér á landi, og það hefði verið auðvelt fyrir þá að beita þess konar brögðum, ef þeir hefðu þurft þess með. — Enn skal eg geta þess, að það er nýju leyfishöfunum að þakka og samningum þeirra við útlendinga, að silfurbergið er nú komið í hátt verð, miklu hærra verð en áður, og þar af leiðandi von um meiri hagnað fyrir landsjóð.