13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Ráðherra (B. J.):

Það held eg allir hljóti að sjá, að sannleikurinn í máli þessu, sé alveg gagnstæður því er háttv. þm. Borgfirðinga byrjaði ræðu sína á. Hann talaði um það, háttvirtur þingm., að aldrei hefði lint í sinn garð látlausum ofsóknum frá stjórnarinnar hálfu. Jafnbíræfin ósannindi minnist eg ekki að hafa heyrt fyrri.

Allir hér staddir menn, og fjöldi manna víðsvegar um land, vita mjög gerla, að það er einmitt landstjórnin, sem hefir orðið fyrir ofsóknum, af hendi gömlu bankastjórnarinnar, og hennar allra nánustu fylgifiskum, fyrir það, að hún gerði óhjákvæmilega skyldu sína — að hún setti ekki þessa menn aftur inn í bankann; mennina, sem svo frámunalega lélega höfðu rækt trúnaðarstarf sitt. Fyrir þetta hefir hún verið ofsótt — þetta og ekkert annað. Það þarf ekki annað en fara niður í bankann til þess að sannfærast um, hvort þetta er ekki rétt. Og svo er hann svo bíræfinn, þessi hávirðulegi þingm., að segja að hann sé búinn að hrekja alt — já hrekja alt saman; það er einhver sú allra bíræfnasta ósannsögli, sem eg hefi heyrt nokkurn þingmann bera á borð. Annars er varla við að búast að almenningi geti dottið í hug, hve bankaflagið, fenið eða dýið var orðið gífurlega stórt; það hefði verið óverjandi að láta það halda áfram að stækka, en það hefði það vitanlega gert, ef stjórnin hefði látið þessa sömu herra sitja við stýrið áfram.

Þá var hávirðulegur þingm. enn þá svo ógurlega bíræfinn, að halda því fram, að það gerði ekkert til, þótt óvaldir starfsmenn bankans keyptu fjölda víxla, já þvílík voða fjarstæða! Hefðu gæzlustjórarnir gætt skyldu sinnar, hefðu þessi víxilkaup starfsmannanna auðvitað ekki komið fyrir, en það var nú eitthvað annað. Annar hávirðulegur gæzlustjórinn hafði um tíma verið settur framkvæmdarstjóri bankans, og á þeim tíma höfðu starfsmennirnir keypt fjölda slíkra víxla, sem námu tugum þúsunda að krónu tali, og þegar rannsóknarnefndin leitaði upplýsingar hjá honum um þetta atriði, kom upp úr kafinu, að hann hafði einhvern grun að eins um þrjá slíka víxla. Þetta kalla eg frámunalega lélegt eftirlit með starfrækslu bankans.

Þá leyfði sami háttv. þingm. sér að bera það fram, sem eg líka verð að kalla alveg aðdáanlega bíræfni, að það sem bankinn kynni að hafa tapað stafi af því, að það sé hlutverk hans að styðja atvinnuvegi landsins. Svona þaulbíræfna blekkingartilraun verð eg að kalla hina mestu ósvinnu, og mega það firn teljast að slíkt skuli koma fram á alþingi.

Þá leyfir hávirðulegur sami þingm. sér enn að lýsa það ósannindi, að hann hafi kannast við að tapið mundi vera orðið um 200,000 krónur. Það þarf töluverðan kjark til þess, að halda slíku fram.

Annars er það ekki regla að taka sakborna menn trúanlega í nokkru landi, framyfir allsendis óhlutdræga menn, og svo mun ekki verða hér gert yfirleitt. Einnig vildi sami þingm. gera lítið úr víxlahvarfinu; hann má segja hvað sem hann vill; eg legg engan trúnað á hégómann þann, sem hann er að reyna að framfæra sér til varnar, af veikum mætti þó.

Það verður að vera á ábyrgð bankastjórnarinnar að víxlar, eða önnur verðbréf, glatist ekki; en mér er kunnugt um, að í þessu atriði, sem og reyndar flestum öðrum, sýndi fráfarna bankastjórnin mjög sorglegan trassaskap; hún geymdi sem sé víxlana í opnum kössum, sem hinir og aðrir gátu haft aðgang að, og eitt er víst, að bankastjórnin gerði sig mjög seka í því að þegja um hvarfið, ef hún kynni að hafa vitað eitthvað um það. Annars væri þörf á að gera þessum virðul. þingm. ómögulegt að koma fram með slíkan fyrirsláttarhégóma og nú hefir hann borið á borð hér í deildinni.

Þá er það helber misskilningur hjá honum, að eg hefði nokkurn tíma verið að bera saman þekkingu mína við hans þekkingu í bankamálefnum; eg benti einungis til manna, sem þeim störfum eru þaulvanir og alveg óhlutdrægir í þessu máli — bankastjóranna dönsku.

Hávirðulegur sami þingm. þóttist ekki hafa getað unnið betur en hann hefði gert, að eftirliti í bankanum, fyrir einar þúsund krónur. Þetta líka smánarboðið. Eg vildi mega benda honum á, að þessi aukaþóknun hans er talsvert meiri en t. d. prestar hér á landi hafa fyrir 16 tíma vinnu á dag. Það að háttv. þingm. lýsir það ósannindi, að hann hafi sýnt þrásinnis landstjórninni þrjózku og þverúð, get eg vísað til hans aftur, sem fyrirlitlegasta hégóma. Annars má svo að orði kveða, að alt hjal háttv. þingm. hér í dag sé ekki annað en auðvirðilegasti skáldskapur, og vesalasti hégóma fyrirsláttur.

Hinn alkunni, afarvirðulegi 5. konungkj., formaður í svokallaðri rannsóknarnefnd hér í deildinni, hafði við hæstv. forseta þau orð um mig, að það væri venja mín að ganga á brott, af tómri ragmensku, ef eitthvað á bjátaði. En það skal hann, þessi hávirðulegi herra, fá að vita, að það eru venjulega mestu ragmennin, sem gala hæst um ragmensku annara. Ef einhver kemur, sem þorir að taka ofan í hnakkadrambið á þeim vildu þeir helzt fara í felur.

Og það verð eg að segja, að það er ekki til nokkurs hlutar fyrir þennan hávirðulega speking að reka upp fíflahlátur

— það má hann, ef hann vill fyrir mér.

— En hann vantar venjulegast öll skilyrði til þess, að geta talað um mál af viti og þekkingu.