21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

120. mál, farmgjald

Björn Kristjánsson:

Eg vil að eins fara örfáum orðum um brtill. 2. þm. Árn. (S. S.). Það er óheppilegt, hve seint hún hefir komið fram, svo að hvorki eg né nefndin hefir haft tækifæri til þess að athuga hana. Eins og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) tók fram, reis aðalóánægjan og mótspyrnan móti frv. á síðasta þingi út af því, að menn voru ekki ánægðir með flokkaskiftinguna. — Það var upphaflega tilætlunin að leggja ekki gjöld á vörur, sem að eins vissar stéttir nota, og þessvegna voru t. d. kol undanþegin farmgjaldinu; þau hafa hina mestu þýðingu fyrir hina innlendu botnvörpungaútgerð. Annars væri það tvíeggjað sverð að leggja toll á þau kol, sem útlendingar kaupa hér á landi, þótt hægt væri að koma því við; það væri að minsta kosti á móti þeirri meginreglu, sem önnur lönd fylgja, sem sé að létta tollum af vörum, sem flytjast út, svo hægt sé að ná sem mestum verzlunarhagnaði og verzlunarveltu í landinu við útlendinga. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vona að brtill. verði feld.