29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

153. mál, prentsmiðjur

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Eg skal þá fyrst minnast á ræðu hæstv. ráðh.

(Kr. J.). Út af því sem hann sagði, að hann mundi ekki fara eftir því, þótt neðri deild skoraði á hann að gera eitthvað í þessu máli eða öðrum, þá datt mér í hug það, sem Hannes gamli Árnason prestaskólakennari sagði við Gunnlaug kisa: »Þú byrjar fallega þína »inspection« hér í bekknum góður«. Hann gat þess, að þingið 1907 hefði samþykt þingsályktunartillögu um þetta efni. Eg hefi lýst þeirri tillögu. Hún er bygð á skilningsleysi og lítilþægni, og er þinginu ósamboðin.

Hæstvirtur ráðherra talaði um það, að þingið ætti að standa við orð sín. — Ja, svo leiðinleg sem þingsályktanin 1907 er, þá er þar þó engu lofað að lögskyldu bókaútlátin héðan skuli aldrei afmáð. Hér getur því ekki verið að tala um neina óorðheldni.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) var gamansamur að vanda, en skoðanir hans eru að öðru leyti einkennilegar í þessu máli. Hann vill flytja bækur vorar úr landi til geymslu. Háttv. 2. þm. S.-M. (J. Ó,) svaraði honum ekki illa, þegar prentsmiðjufrv. var hér til umræðu, með þeirri spurningu, hvort nokkur þjóð mundi vilja láta flytja allar sínar bókmentir til annara landa til þess að geyma þær þar, af því það gæti verið að bókasöfn hennar brynni. Háttv. 1. þingm. S.-Múl. (J. J.) ætti að kenna öðrum þjóðum þessa veraldarvizku sína og þetta þjóðráð eða þá »landráð«. Hann mundi fá þakkirnar fyrir.

Það, sem hér liggur fyrir að gera í sambandi við báðar þessar tillögur og sem ráðherra er skyldugur til að gera, verði tillaga mín samþykt — þótt hann ekki ætli að framkvæma það — að sjá um, að tillagan frá 1907 verði ekki framkvæmd lengur okkur til minkunar, því hún var og er betl og annað ekki.