29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

153. mál, prentsmiðjur

Jón Magnússon:

Það var óheppilegt hjá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) að tala um kjötstimpilinn danska, því ef nokkur maður hér ber á sér danskan kjötstimpil, þá er það hann. Hann er sá eini maður í þessari deild, sem þiggur árlegan styrk af ríkissjóði Dana.

Annars skal eg ekki fara mikið út í málið. Það sem hér er um að ræða, er ekki annað en, hvort þingið vill halda þá samninga, sem það hefir gert, eða ganga frá loforðum sínum. Eg hygg, að það hafi verið tekið fullgreinilega fram, sem þörf hefir verið á.

Menn hafa sótt þetta mál með svo miklu kappi. Annars lýtur helzt út fyrir, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) vilji helzt, að enginn eigi nein viðskifti við Dani, nema hann sjálfur fyrir sína eigin persónu.