29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

153. mál, prentsmiðjur

Bjarni Jónsson:

Það er misskilningur, að þingið brigði loforð, þótt þetta væri samþykt. Það er engin sanngirni í því, að skylda prentsmiðjur hér á landi til að senda útlendum bókasöfnum bækur ókeypis. Annað mál væri það, að veita fé á fjárlögunum til að kaupa hér bækur og senda þær útlendum söfnum að gjöf. Nú erum við búnir að gefa Dönum bókmentir vorar í 80— 90 ár; sé gert ráð fyrir, að það hafi verið 400 kr. virði á ári í 80 ár og 5% mun það fé nú nema 388,545 kr. Nú er þessi kvöð 540 kr. á ári, eða eftir 80 ár með 5% 524,525 kr. Auk þess eru 540 kr. meira fé en andvirði þeirra bóka, sem árlega koma út í Danmörku og að nokkru eru nýtar. Væri því ekki betra að spara sér nokkuð af því fé og kaupa heldur fyrir það enskar og þýzkar bækur. Þetta er ekki af neinni óvináttu mælt, heldur af því, að þetta virðist sjálfsagður og eðlilegur hlutur, sem virðist mega liggja öllum í augum uppi.