08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

50. mál, landsbankalög

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Það er ekki langt síðan lögum þessum var breytt. Það var gert á síðasta þingi, og þá kom málið limlest úr háttv. Ed. frá meiri hluta þar. Nú hefir bankastjórnin óskað aftur þeirra breytinga, sem þá voru feldar, ásamt fleiri breytingum, er reynslan hefir bent á, að muni vera heppilegar. Það hefir vakað fyrir bankastjórninni, að koma bankalögunum í sem mesta heild, svo að ef frumvarp þetta nær samþykt, verða bankalögin ekki nema í tveim deildum.

Það er ætlast svo til, að þrjár greinar bankalaganna fái að standa óbreyttar.

Fyrsta höfuðbreytingin er sú, að bankanum er veitt heimild til þess að setja á stofn útibú, bæði hér á landi og erlendis. Það er nauðsynleg heimild, þótt ekki kunni að þurfa á því að halda í svipinn.

Þá er og bætt inn í lögin ákvæði, sem í ógáti hefir fallið í burtu úr lögunum frá 1885, 4. gr., sem sé því, að seðlar bankans skuli vera gjaldgengir í landssjóð og aðra opinbera sjóði hér á landi og að þeim megi skifta gegn öðrum seðlum hans.

Það er ein aðalbreytingin, að breyta launakjörum féhirðis að nokkru leyti. Nú sem stendur eru föst laun hans 2400 kr. En ef stranglega væri gengið eftir upphækkun þeirri, sem honum er áætluð fyrir mistalningu, þá mundi það fara fram úr launum allrar bankastjórnarinnar til samans, svo óviturleg eru þau ákvæði gildandi laga. Auðvitað hefir núverandi gjaldkeri ekki reynt að að nota sér þetta, ekki tekið meira mistalningarfé en af því, sem í raun og veru gengur í gegnum hans kassabók, en það gerir engan mun. Fyrirkomulagið er úrelt, þótt launin þurfi auðvitað að vera hærri, ef breytt er til, og það sem hér er lagt til, er gert í samráði við gjaldkera. Eg get gert nákvæmari grein fyrir þessu, þegar til kemur, en nú hefi eg ekki við hendina í svipinn það sem til þess þarf.

Þá er það og ný tillaga, sem að mínu áliti miðar til þess að gera bankann sem öruggastan, einkum vegna sparisjóðanna, að rannsókn fari fram fimta hvert ár á öllum hag bankans. Þetta er vilji bankastjórnarinnar, bæði vegna bankans og sjálfra sín.

Loks er það nýmæli, að bankastjórninni er gefin heimild til þess, ef svo ber undir, að bankinn tapar á einu ári meira en nemur hálfum ágóða hans það ár, — þá að skifta því tapi niður á 2 eða fleiri ár í bankareikningnum. Þetta tap getur komið fyrir af ýmsum ástæðum, bæði af stórlánum og verðfalli á verðbréfum, en það lítur illa út í augum útlendinga, ef reikningarnir sýndu svo mikið tap á einu ári. Það er því skynsamlegt, að slík stofnun sem landsbankinn hafi leyfi til þessa, svo að hún tapi ekki að þarflausu áliti sínu í augum útlendinga, og slík töp vofa yfir eins og stendur.

Eg álít sjálfsagt, að þetta mál verði sett í nefnd, og sting upp á því, að því verði að loknum umræðum vísað til peningamálanefndar.