19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Frumvarp þetta, sem hér liggur fyrir háttv. deild, hefir verið til umræðu í nefnd og er hún öll sammála um, að það verði gert að lögum án breytingar, að undanskildum nokkrum orðabreytingum og 1 efnisbreytingu. Orsökin til frumvarpsins er sú, að ýms brunabótafélög neita að greiða bætur, nema lítinn hluta, þá er fátækir menn eiga hlut að máli, í því trausti, að þeir hafi ekki efni á að halda málum sínum til hæstaréttar, og þoli ekki þá 3—4 ára bið, sem slíkt málskot hefir í för með sér, því að mennirnir þurfa venjulega að reisa hús aftur þegar. Nýskeð var maður þannig neyddur til þess að taka á móti 2/8 hluta brunabótafjár, enda þótt hann hefði getað fengið sér alla upphæðina tildæmda með hæstaréttardómi. Fyrir 4 árum brann hjá manni nokkrum hér á landi. Neitaði félagið að greiða honum meira en 225 kr. af brunafénu, sem var 5000 kr., og var þó ekkert grunsamlegt þar um brunann. Málið var nú loks í vetur eftir fullra 4 ára drátt lagt í gerð í Kaupmannahöfn og fékk hann 4500 kr. Það er auðvitað þau óvandaðri félög, sem beita þessu, hin gera það ekki. Eg skil ekki, að nokkur geti haft neitt á móti gerðardómi. Það er ekki hægt að finna honum til foráttu, að ekkert vátryggingarfélag vildi þá starfa hér á landi, eða það, að íkveikjur væru hér svo tíðar. Því að það eru svo mörg vátryggingarfélög, er sækjast eftir að starfa hér, af því að það er arðvænlegt, og brunar af mannavöldum ættu ekki að vera nein ástæða til þess að óttast gerðardóm, heldur þvert á móti. Gerðardómur mundi láta sér ant um, landsmanna vegna, að vera strangur. Því að óorð á landsmönnum gerir vátryggingar dýrari. Það er og venjulegt ákvæði í vátryggingarskírteinum hinna betri félaga, að gera ráð fyrir gerð í málunum. En í frumv. er svo mikil trygging fyrir góðum gerðardóm sem unt er. Þess vegna hefir nefndinni virst frumv. bæði réttlátt og nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að setja tryggingu gegn því, að einstök félög hafi einstaklinga að féþúfu. öll nefndin hefir orðið sammála um frv. Hefir hún að eins komið fram með eina efnisbreytingu við 10. gr.; hinar breytingarnar, er hún hefir komið með, eru að eins orðabreytingar til þess að skýra sem bezt frumv.