22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Mér þykir leitt, að vinur minn hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) skuli líta svona á þetta mál, en eg vona að háttv. þingdeild sannfærist ekki af því. Hann taldi lítið unnið með þessum gerðardómum. Það yrði þó stór munur að fá þá. Má meðal annars benda á það, að dómsskot til hæstaréttar tekur oft 4—5 ár; yrði því mikill munur til batnaðar, ef hægt væri að útkljá málin á styttri tíma. Hann er hræddur um það, að útlend brunabótafélög mundu hætta viðskiftum hér, en ekki veit eg á hverju hann byggir það. Ef hann kynnir sér málavöxtu, þá mun hann sjá, að meginþorri allra brunabótamála er útkljáður, án þess að dómstólarnir komi nærri; eru þá stundum viðhafðir gerðardómar. Þau félög, sem hætta mundu viðskiftum ef til vill, eru þau ein, sem lifa á því að féfletta menn, og er engin eftirsjá í þeim. Hin þarf ekki að óttast.

Þá gat hann þess, að kostnaður mundi verða meiri fyrir félögin, því að þau þyrftu að senda mann til að mæta fyrir sína hönd. Mér er óskiljanlegt, að þeir menn mundu verða betri til að fylgja þeirra máli en lagamenn hér, því ekki munu útlendir menn þekkja betur lög landsins og staðháttu. Nú er því svo farið, að mörg félög hafa í hótunum að skjóta málum til hæstaréttar til þess að hræða menn til að þiggja smánarboð. Honum þótti ósanngjarnt að útiloka menn frá dómstólunum. Eg vil í því efni að eins minna á Samábyrgðina. Þar er gerðardómur lögboðinn. Annars virðist mér kenning hans vera meira á hugarburði bygð en reynd eða skynsamlegum rökum.