22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Hannes Hafstein:

Því fer mjög fjarri, að eg sé því mótfallinn, að réttur vátryggjanda sé sem bezt trygður. En álit mitt er, að þetta frumv. komi ekki að fullum notum í því efni. Við megum ekki fæla útlend félög frá okkur, en svo getur farið, ef þetta frumv. nær fram að ganga, að víða verði erfitt að fá vátryggingu yfirleitt, meðan innlent ábyrgðarfélag er ekki til.

Hv. framsm. (J. Ól.) var í efa um á hverju eg bygði þá skoðun mína, að hætt gæti verið við því, að útlend félög neituðu viðskiftum við oss. Eg ræð það það af líkindum, sem liggja mjög nærri, en auk þess hefi eg nokkra reynslu í því, hversu útlend ábyrgðarfélög eru sólgin í viðskifti við Ísland. Það kom glögt fram í tilraunum þeim, er gerðar voru hér um árið til að koma í framkvæmd lögunum um innlent ábyrgðarfélag og fá útlend félög til þess að takast á hendur endurtrygging fyrir það félag, enda höfum vér og daglega reynslu fyrir því, að þau álíta ábyrgðarviðskifti við oss ógerning, nema fyrir hærra gjald heldur en annarstaðar er heimtað. Vér höfum ekki sem bezt orð á okkur, þar sem það er kunnugt, að slökkvitæki og slökkvilið vantar víðast hvar, og grunur leikur á, að íkveikjur séu mjög tíðar, þótt sjaldan verði uppvíst. Eg tel mjög óheppilegt, að löggjafarvaldið fari að setja skorður, er geti gert mönnum enn erfiðara að fá ábyrgðir en nú er, eða alls ómögulegt.

Hv. frsm. (J. Ól.) hélt, að engin hætta mundi á því vera, að gerðardómi þeim, sem frv. fyrirskipar, mundi ekki verða hlýtt, og í öllu falli mundi málflutningur um það efni verða greiður og stuttur utanlands, en illa þekkjum við þá útlenda málafærslumenn, ef við byggjum á því, að þeim mundi verða skotaskuld úr því að finna einhverja annmarka við form gerðardóms eða annað, sem að minsta kosti gæti tafið fyrir fullnægjudómi erlendis. Eg held að þetta gefi enga verulega tryggingu, nema þá að ábyrgðarfélögin væru jafnframt skylduð til að setja tryggingarfé, líkt og útflutningafélögum hefir verið gert að skyldu, er halda mætti eftir eða taka af, ef dómur félli á þau. Áður en það fæst, hygg eg að lítið sé unnið við slíkar lagasetningar.

Að lokum skal eg taka það fram, að það er mjög óviðfeldið, að útiloka menn alveg frá því að fara til dómstólanna, ef þeir óska þess, og telja það sé hagfeldara eða ódýrara.