24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Framsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg ætla ekki að fara langt út í þetta mál að þessu sinni. Hinn háttv. framsm. minni hl. (B. Sv.) skýrði málið frá sinni hlið, og talaði mjög hógværlega. Þó ætla eg að leyfa mér að leiðrétta fáein af hans ummælum. Háttv. framsm. minni hl. talaði um það, að nefndin hefði brúkað nokkuð langan tíma, og ekki unnið af nægu kappi. En hún hefir unnið af miklu kappi. Haldið fundi á hverjum degi og unnið eftir föstu plani. Nefndarmenn hafa sjálfir sótt fundi reglulega, nema hvað háttv. framsm. minni hl. (B. Sv.) hefir gleymt að mæta á þrem fundum tvo daga í röð.

Því var haldið fram af háttv. þm. þm. Barð. (B. J.), að gæzlustjórarnir væri ekki starfsmenn þingsins, heldur landsins, og stæðu því undir stjórninni. En þetta er ekki rétt. Eftir bankalögunum nýju, eru þeir fulltrúar þingsins, settir af því til að hafa eftirlit með, hvernig bankanum er stýrt. Þeir eiga að skýra alþingi frá því, sem þeim þykir athugavert við bankann. Þetta starfssvið gæzlustjóranna sýnir, að þeir eru verkamenn þingsins en ekki landsstjórnarinnar.

Háttv. framsm. minni hl. (B. Sv.) hélt því fram, að landsstjórnin gæti tekið fram fyrir hendurnar á gæzlustjórunum, en það er ekki rétt, því þeir eru ekki hennar starfsmenn. (Björn Jónsson: Hvað sem þeir hafast að?) Ef þeir verða forfallaðir sakir glæpa, þá er það ekki landsstjórnin, sem ræður neinu um það.

Háttv. þm. Barð. (B. J.) hélt því fram, að bankarannsóknarnefndin hefði ekki tafið fyrir gerðum nefndarinnar, en það er ofmælt. Það er langt síðan þessi nefnd var kosin, og þá skrifaði hún þegar bankanum og stjórnarráðinu, og bað um gerðabók rannsóknarnefndarinnar. En hún var í hvorugum staðnum. Fyrst fékk hún eina bók 23. þ. m. En hver segir, að það hafi ekki verið til nema ein gerðabók. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar á bls. 60 stendur:

»Síðan 6. október 1909 hefir nefndin svo að segju daglega verið að störfum í landsbankanum við ransókn sína, og hafa skýrslur þær, er hún hefir tekið upp, verið innfærðar í sérstaka bók, og sýnir bók þessi, hvernig störfunum hefir verið varið og hvað gert hefir verið.

Þess utan hefir hún daglega utan bankans unnið að rannsókn sinni og einstöku daga hefir það starf hennar tekið upp allan daginn, svo að hún hefir þá ekki verið til staðar í bankann, og sést einnig þetta af fyrrnefndri bók«.

Eðlilega lítum við því svo á, að enn sé haldið, að minsta kosti einni gerðabók leyndri, þar sem í þeirri, sem við höfum fengið, er alger eyða fyrir allan tímann frá 6. okt. til 8. nóv., en af skýrslu rannsóknanefndar sést, að fundir hafa verið haldnir daglega. Það er því ekki ofmælt þó eg segi, að við höfum verið hindraðir í okkar störfum. Eg gef ekki háttv. fyrverandi ráðherra svo mjög sök á þessu, því eg lái honum ekki, þótt hann hafi ekki athugað þetta. En það er rannsóknarnefndin, sem er vítaverð. Hún var samkvæmt 22. gr. stjórnarskrárinnar skyldug til að veita okkur allar þær upplýsingar, sem hún gat í té látið. Þessi rannsóknarnefnd kostaði landið 9000 kr., og ætti svo landið ekki að eiga gerðabækur hennar?

Því hefir verið haldið fram, að þessar gerðabækur hefðu að geyma trúnaðarmál. Þar væru um »status« manna manna staðhæfingar, sem ekki mættu fara út á meðal fólks. En ættu ekki nefndarmenn kosnir af alþingi að vera nógu trúverðugir til að þegja yfir slíku? Þingnefnd sú, sem rannsakar þetta mál, á heimtingu á því að fá í hendur öll plögg því viðvíkjandi.

Það hefir verið sagt, að matsbókinni væri betur borgið sem prívateign en í höndum landsstjórnarinnar!! En hvernig fer, ef þessir menn deyja. Þá yrðu bækurnar ef til vill seldar á uppboði og kæmust fyrir allra augsýn.

Ætti til dæmis setudómari að hafa burt með sér allar þær embættisbækur, sem hann hefir skráð gerðir sínar í, og lýsa þær sína eign? Eða skyldu bréfabækur Vestmannaeyjasýslu geta skoðast prívateign sýslumannsins þar. Það virðist mega vera öllum ljóst, að gerðabækur þær, sem hér um ræðir, hljóta að vera eign landsstjórnarinnar.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að þessu sinni.