24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Pétur Jónsson:

Það hafa nokkrir þingmenn haldið því fram, að ekki væri rétt að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, þar sem málið væri í hæstarétti og biði úrslita. Ætti því að bíða dóms þaðan. En spurningin, sem fyrir þessu þingi liggur, er ekki um það, hvað hæstiréttur segir í því máli. Hún er einmitt um ástandið, eins og það er nú og ekki getur beðið eftir hæstaréttardómi. Hún er sú: hverjir eru löglegir og réttmætir gæzlustjórar landsbankans? Eða er sá gæzlustjóri, sem þessi deild kaus á sínum tíma réttmætur gæzlustjóri, eða hinn, sem settur var í hans sæti af stjórninni?

Eg hefi ekki heyrt neinn halda því fram, að sá, sem nú situr í bankanum, sé sá löglegi gæzlustjóri. Hið gagnstæða hefir komið fram í ræðum háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og þm. Dal. (B. J.). Sama má draga út úr ræðum háttv. þm. Barð. (B. J.) og sama hefir hann sagt hér, að stjórnin hafi sett gæzlustjórana frá einungis um stundarsakir.

En þær stundarsakir geta þó ekki, hvað sem öðru líður, talist ná lengra en til næstu þingsamkomu. Enginn hefir heldur haldið því fram, að þeir, sem nú sitja í landsbankanum sem gæzlustjórar, séu löglegir gæzlustjórar. Enginn hefir bent á neinn lagastaf fyrir því. Loks er það mín skoðun og margra annara, að afsetning gæzlustjóranna, að því leyti, sem hún náði lengra en til 1. jan. 1910 hafi verið heimildarlaus að lögum, því aldrei hefir komið fram ákæra, því síður sönnun í átt, að gæzlustjórarnir hafi gert sig seka í neinu því, er varði embættismissi, en slíkt þurfti að vera til þess að tekið væri af þeim starf, sem alþingi sjálft fól þeim. Af öllu finst mér þetta mál ofur einfalt. Neðri deild á að setja gæzlustjórann inn aftur í starf sitt og átti að vera búin að því fyrir löngu.