21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Lárus H. Bjarnason:

Eg hefi litlu við það að bæta, sem hv. 6. kgk. þingm. sagði um þetta hégómafrumvarp stjórnarinnar. Að eins vil eg slá því föstu, að hv. ráðherra hefir í ræðum sínum játað tvö atriði, í fyrsta lagi, að með þessu frumvarpi væri færðar saman kvíarnar um mentunarkröfur almennings, og í öðru lagi, að hann hafi ekki leitað aðstoðar umsjónarmanns fræðslumála, en það hefði þó verið alveg sjálfsagt, nema ætlun stjórnarinnar hafi verið að drepa hið eldra undir öllum kringumstæðum, án tillits til þess, hvað koma ætti í staðinn.

Ókostir þessa frumv. eru aðallega tveir, fyrst sá, að kröfurnar til barnafræðslu eru til muna færðar niður, og í öðru lagi, að það er kipt burtu allri tryggingu fyrir því, að almenningur fái nokkra frekari fræðslu en þessa lítilfjörlegu barnafræðslu, sem frumv. ákveður, því að henni lokinni er ekki ætlast til neinnar frekari námskyldu.

Það sló útí fyrir hæstv. ráðherra þegar hann var að tala um í hverju sönn mentun væri fólgin og taldi þar til gott hjarta, þrek og greind. Þrek og greind eru skilyrði til þess að geta mentast, hæfileikar til mentunar, en það er ekki mentun.

Í rauninni verðskuldar frumvarpið ekkert annað en að verða skorið niður umræðulaust. En eg vil þó mæla með því að það verði látið halda áfram af sömu ástæðum, sem eg hefi áður tilfært, um önnur frumvörp stjórnarinnar, nfl. í þeirri von, að deildin geri það, sem ráðherra átti að vera búinn að gera, en hefir forsómað, athugi og undirbúi málið betur og leiti sérstaklega um það umsagnar fræðslumálastjórans. Því skal eg leyfa mér að mæla með nefndarskipun að þessari umræðu lokinni.