18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Ráðherra (Kr. J.):

Eg gerði ráð fyrir því um daginn, að skýra frá afstöðu minni til málsins við þessa umræðu, og vil eg nú gera það með örfáum orðum. Síðan 1899 hefi eg verið eindreginn sölubanns maður. Eg hefi viljað banna alla sölu á áfengi, banna, að nokkur geti haft það á boðstólum. Þetta hefir verið aðal-atriðið fyrir mér. Mér fanst það vera léttasta og auðveldasta leiðin, og með því yrði háskinn af áfenginn að mestu leyti horfinn. Þótt eg sé Goodtemplar, þá hefi eg aldrei litið öðruvísi á áfengið, en svo marga aðra hluti sem má misbrúka, og eg hefi ekki séð, að það væri hægt á annan betri hátt að koma í veg fyrir misbrúkun á því, en með því að banna að hafa það á boðstólum eða til sölu. Á aðflutningsbann hefi eg ekki lagt eins mikla áherzlu. Þetta hefi eg sagt kjósendum mínum í Borgarfirði, og eins lýst því yfir fleirsinnis í Goodtemplarafélaginu. Eg varð í minni hluta með þessa skoðun mína á Stórstúkuþingi fyrir nokkrum árum ásamt öðrum góðum mönnum, svo sem landlækni Guðmundi Björnssyni, sem var eindreginn með sölubanni, þegar samþykt var í félaginu að hallast að aðflutningsbanni.

Eg get fyrir mitt leyti mælt með því, að ákvæðum aðflutningsbannslaganna sé frestað. Eg get ekki skilið, og það er ekki rétt að líta svo á, að það sé örþrifaráð frá hvaða hlið svo sem málið er skoðað, eða að aðflutningsbanninu sé stofnað í nokkurn voða með frestun laganna, þeirri er stofnað er til. Eg álít málið svo gott, og að það hafi fengið svo mikið tangarhald á þjóðinni, að því sé engin hætta búin, þótt aðflutningsbanninu væri frestað um 1, 2 eða 3 ár. Þegar aðflutningsbannið var samþykt á þinginu 1909, hefði eg óskað þess, að því hefði verið skotið á frest að samþykkja lögin um það til fullnaðar, og láta þau fara skilyrðislaust frá þinginu. Eg var forseti þá hér í deildinni, og hafði því ekki tækifæri til að láta í ljósi álit mitt um málið, enda hefi ekki gert það fyr en nú hér í deildinni. Eg lít svo á, að málið hafi þegar fengið svo mikið og fast tangarhald á þjóðinni, að fylgi þess muni fara vaxandi ár frá ári en ekki minkandi, og sérstaklega tel eg engan vafa á því, að með breyttum kosningalögum og útfærðum atkvæðisrétti (svo sem til kvenþjóðarinnar) sé málið fulltrygt á alla bóga. Og þá gerir það hvorki til né frá, þó lögunum verði frestað í 1—2 ár. — Sé svo að menn séu hræddir við, að lögin þoli ekki þessa bið, sé svo, að menn séu hræddir við, að alda kunni að rísa, sem sé lögunum hættuleg, þá álít eg, að betra sé að fresta þeim þangað til þau hafa fengið þann bakhjarl í þjóðinni, að þeim fái ekkert grandað. Kvíði menn að þau verði feld, þá segi eg: bíðum, bíðum og stælum þjóðina þeim til fylgis. Þessi orð mín eru töluð af innilegum velvilja til málsins. Það var einn hv. þm. hér áðan að tala um seitlugat. En ef kæmi seitlugat á bannlagavegginn, þá mundu, ef hér eru svo margir vinveittir banninu eins og sagt er, verða til óteljandi drengir, fullorðnir menn og konur, til að stöðva seitluna. Menn eiga að hafa dirfð til þess að lofa því að koma í ljós með frestuninni, hvort hér sé nokkur hætta á ferðum. Hér hafa verið færð rök fyrir því, að ástæða væri til að fresta aðflutningsbannslögunum að eins um eins árs skeið vegna aukaþingsins og til þessa þings. Þær ástæður hafa auðvitað mikið til síns máls, en eg efa, að aukaþingið 1912 hafi kringumstæður eða tíma til að setja hér svo undir lekann sem þarf. Eg mundi því líta svo á, að frestun um 2 ár væri hentugri, ef ekki 3 ár. Ef háttv. þingdeildarmönnum lízt svo, þá er enn hægt að breyta þessu.

Eitt atriði vildi eg enn minnast á. Þegar verið er að tala um aðflutningsbann, er það mikið athugunarefni, hvort það á að ná til allra drykkja, sem kallaðir eru áfengir, sem sé til hinna léttu þrúguvína.

Bannið á að sjálfsögðu að taka til allra spírítusdrykkja, en hitt virðist vera óþarft að láta það einnig útiloka saklausu vínin, léttu vínin, borðvínin, sem neytt er í suðurhluta og miðhluta Norðurálfunnar, þessi mjög óáfengu vín, sem hafa gert það að verkum, að þessar þjóðir eru ekki drykkfeldar, og hafa aldrei verið það.

Sannarlega, þessi vín eru guðs gjöf, sem ekki ætti að þurfa að banna þessari þjóð að neyta fremur en öðrum þjóðum, en hvergi er bannað að neyta þeirra. Aðflutningsbannið ætti ekki að ná nema til sterkra drykkja eða spírítusdrykkja og áfengra öltegunda.

Aðflutningsbann þekkist hvergi um allan heim. Að vísu hafa Finnar leitt það í lög, en lögin hafa eigi öðlast staðfestingu, og hafa víst verið lögð á hylluna, eins og sagt er. En sölubann er reynt víða, til dæmis í Ameríku, og hefir það gefist misjafnlega, sem búast má við. En vafalaust hefði verið rétt að láta sölubannið ganga á undan aðflutningsbanni; reyna fyrst sölubann, og ef það eigi reyndist nægilegt til þess að útrýma áfengisbölinu, þá fyrst lögleiða aðflutningsbann. Enn verð eg að benda á, að ekki er nægilegt að koma lögunum á og í framkvæmd, það þarf að gera einhverja nægilega ráðstöfun til þess, að þeim verði hlýðni sýnd og það verður ervitt, er eg hræddur um, að sjá um það, að þessi lög verði eigi fótum troðin allmjög og víðsvegar. Hér flýtur hver brennivínskastalinn eftir annan í kring um landið, ef svo mætti að orði kveða, og þó við hefðum nægan skipastól til eftirlits, gætum við ekki látið eftirlitið ná lengra en ¾ mílu út frá landi.

Eg hefi altaf haft nokkurn kvíða fyrir þessu. Það er, borið kvíðboga fyrir því, að slælegt verði eftirlitið með framkvæmd laganna, og að þau verði of mjög fótum troðin. — Hinu býst eg við, að ekki verði hvikað frá, að lögin verði látin öðlast gildi með ársbyrjun 1915.